Föstudagur, 4. ágúst 2017
Flokkur fólksins er stjórnarandstaðan: rökin
Stjórnarandstöðuflokkurinn sem bætir mest við sig fylgi í skoðanakönnunum á milli kosninga er ,,stjórnarandstaðan" á hverjum tíma. Ástæðan er sú að í umræðunni er litið svo á að sá flokkur sem er á mestu flugi geti orðið afl í næstu ríkisstjórn.
Allt síðasta kjörtímabil voru Píratar ,,stjórnarandstaðan" á meðan Vinstri grænir spiluðu aukahlutverk. Þegar kom að kosningum misstu Píratar fylgi en Vinstri grænir styrktust.
Þessa dagana er Flokkur fólksins ,,stjórnarandstaðan", samkvæmt ofangreindri skilgreiningu. Formaður flokksins, Inga Sæland, notar önnur rök fyrir stöðunni. Við erum alþýðan, segir hún.
Munurinn er á því kenna sig við alþýðuna og vera alþýðan eins og ég. Ég stend í nákvæmlega þeim skóm og búin að gera alla mína ævi, þess hóps sem ég er að berjast fyrir. Ég er varanlegur 75% öryrki með rúmar 200 þúsund krónur á mánuði, ég er að berjast fyrir þennan hóp, við viljum fá að taka þátt í samfélaginu og við viljum vera með. Og svo framarlega sem ég heiti Inga Sæland þá er að marka hvert einasta orð sem ég segi.
og
Litli Flokkur fólksins hann er eina stjórnarandstaðan í landinu í dag! Hinir eru allir í sumarfríi! Það er enginn að gera neitt, fara bara í langt langt sumarfrí, ofsalega gaman hjá þeim, en það þarf að vinna fyrir fólkið í landinu! Þessir einstaklingar eru kjörnir af okkur til að vinna fyrir okkur og þeir eru með ágætis laun. Þeir ættu að sýna sóma sinn í að vinna fyrir fólkið í stað þess að liggja og sóla á sér.
Inga er stjórnmálamaður annarrar gerðar en við eigum að venjast. Hún er ekki sprottin úr jarðveginum Reykjavík 101, eins og flestir Píratar, Vinstri grænir, Björt framtíð og þeir sem einu sinni kenndu sig við Samfylkinguna.
Reykjavík 101-liðið vildi bæta hag háskólafólksins, sérfræðinganna. Þingmaður þeirra, úr röðum Pírata, sagði á ASÍ-þingi að atvinnustefnan væri að Ísland yrði aðili að geimferðarrannsóknaráætlun Evrópusambandsins.
Í óreiðunni eftir hrun var markaður fyrir stórar lausnir: ESB-aðild, nýr gjaldmiðill, ný stjórnarskrá og nýtt Ísland.
Þegar óreiðan sjatnaði afhjúpuðust stóru hugmyndirnar og reyndust ferðir út í geiminn. Flokkur fólksins, með Ingu sem formann, vill gera gott Ísland betra fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Þess vegna er Flokkur fólksins stjórnarandstaðan.
Athugasemdir
Heitir konan ekki Sæland?
Wilhelm Emilsson, 4.8.2017 kl. 10:02
Rétt, takk fyrir leiðréttinguna.
Páll Vilhjálmsson, 4.8.2017 kl. 10:32
Ingibjörg Sólrún hefur hafið gagnsókn fyrir hönd Samfylkingar. Úr fílabeinsturni kerfisapparatsíns ÖSE opinberar hún nú mistök sín þegar hún tók þátt í stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem væri bara rótgróinn kerfisflokkur. Henni virðis þó líða bísna vel í kerfi kerfisins ÖSE.
Og engar þakkarkveðjur til Guðlaugs Þórs fylgdu með.
Ragnhildur Kolka, 4.8.2017 kl. 15:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.