Fjölmiðlabergmál og falsfréttir

Samfélagsmiðlar eru sagðir bergmála fordómum notenda. Óumbeðið fær notandinn upplýsingar sem taka mið af áhugasviði hans. Notandi sem skoðar kristið efni fær óumbeðið  biblíuefni upp á skjáinn sinn. Sama gildir um vinstrimann. Samfélagsmiðlar sjá til þess að hann fái fóður við sitt hæfi. Ef maður er frímerkjasafnari og flettir upp á slíku efni bergmála samfélagsmiðlar til manns aragrúa af fréttum og auglýsingum um frímerkjasöfnun.

En það eru ekki aðeins samfélagsmiðlar sem bergmála. Fjölmiðlar búa við sitt eigið bergmál. Fréttamiðill sem birtir efni á heimasíðu sinni sér efninu endurkastað út á viðerni alnetsins. Það er eðli netefnis að því er endurvarpað, stundum hráu en einnig með viðbótum að ekki sé sagt skrumstælingu.

Í bergmálinu er gott rými til að stunda fréttafölsun. Orð eru tekin úr samhengi, myndbrot eru klippt til að sýna falsaðan veruleika.

Jafnvel fjölmiðlar sem vandir eru að virðingu sinni, t.d. mbl.is, falla í gryfju falsfrétta. Mbl.is birti frétt um að forsetafrú Póllands hafi sniðgengið útrétta hönd Trump Bandaríkjaforseta. Látið var að því liggja að forsetafrúin vildi ekki handabandið. Fréttin er trúverðug, byggir á 14 sekúndna myndbroti frá BBC.

En fréttin er fölsuð, eins og sést þegar lengra myndbrot að skoðað af sama atburði. Forsetafrúin heilsaði bæði Trump og eiginkonu hans. Forseti Póllands gaf út yfirlýsingu af þessu tilefni: berjumst gegn falsfréttum. (Sem er trumpískt orðalag).

Samkvæmt Viðskiptablaðinu segir Reuters-könnun að stjórnendur fjölmiðla telji falsfréttir tækifæri til að sýna fram á yfirburði vandaðra fjölmiðla. En fréttin hér að ofan, úr smiðju mbl.is/BBC, er augljóst dæmi um falsfrétt annars vandaðra fréttamiðla.

Orðabókin Merriam-Webster skrifar að orðið falsfrétt sé meira en hundrað ára gamalt. En það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem sprenging verður á notkun þess. Ástæðan er að fjölmiðlabergmálið verður sífellt háværara - það drekkir öllum andmælum. Á dögum prentmiðla var sama ferli að baki fréttamiðlun. En það var lágværara, hófstilltara.

Fjölmiðlabergmálið endurvarpar ekki öllum fréttum jafnt. Það er stóriðnaður að koma fréttafrásögnum þannig á framfæri að þær fái sem mest bergmál. Til mikils er að vinna. Menn verða forsetar út á hagfellt bergmál, eins og Trump í Bandaríkjunum, en tapa embættum sé bergmálið þeim mótdrægt, líkt og Sigmundur Davíð fékk að kenna á.

Washington Post staðhæfir að hugtakið ,,fréttafölsun" sé orðið merkingarlaust vegna ofnotkunar. Hugtakið sé notað allar neikvæðar fréttir en allir sjá í hendi sér að ekkert samhengi er á milli neikvæðni og sanninda. Neikvæðar fréttir geta ýmist verið sannar eða ósannar. Sama gildir um jákvæðar fréttir.

Greining Washington Post er rétt svo langt sem hún nær. En hún hrekkur skammt þar sem hún tekur ekki með í reikninginn hvernig fréttir fjölmiðla verða til.

Frétt fellur ekki tilbúinn í fang blaðamanna. Hún er samin, búin til, oftast úr sama hráefni og hún er sjálf; orðum. Áður en hráefnið er sótt ákveður einhver á ritstjórn að nú skuli gerð frétt um þetta tiltekna efni. Og hvaðan koma hugmyndir að fréttum? Jú, vitanlega úr fjölmiðlabergmálinu.

Niðurstöðuna má sjóða niður í sex orð: falsfréttir verða til í fölskum heimi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband