Laugardagur, 27. maí 2017
Frelsi, íhald og markaður
Frelsishugmyndir okkar byggja á rúmlega 200 ára byltingum, þeirri amerísku og frönsku. Þaðan eru komin nútímasjónarmið um að einstaklingurinn eigi náttúrulegan rétt að leita hamingjunnar á eigin forsendum.
Tilraun til að samræma einstaklingsfrelsið ríkisvaldi er sæi um allar þarfir borgaranna, rússneska byltingin 1917 undir formerkjum kommúnisma, mistókst.
Markaðurinn og frjáls verslun varð ráðandi verkfæri til að ákvarða skiptingu efnislegra lífsgæða. Tímabilið eftir seinni heimsstyrjöld var sigurför frjálsa markaðarins. Sovétríkin og bandalag kommúnistaríkja liðaðist í sundur 1989/1991 var sigur vestrænnar markaðshugsunar á alltumlykjandi ríkisvaldi.
En síðasta aldarfjórðunginn lætur markaðurinn á sjá. Vegna markaðarins er vaxandi ójöfnuður á vesturlöndum. Kynslóð vex úr grasi sem sér fram á verri lífskjör en foreldrar sínir. Mótmælin eru þegar hafin. Brexit og Trump eru afleiðing af markaðsbrestum.
Viðspyrna gegn upplausninni er víðtæk leit að fornum gildum, þeim sem gerðu vestrænar þjóðir að traustum og stöndugum samfélögum. Jafnvel Þjóðverjar, sem þora helst ekki að líta um öxl, af ótta við að sjá þar Hitlerinn sinn, stinga sér út í djúpu laugina og ræða þýsk gildi.
Á Íslandi er umræðan með þjóðlegum brag. ESB-umsóknin var spurning hvort við ættum að gefa okkur á vald markaði Evrópusambandsins eða halda í þjóðfrelsið sem Jón Sigurðsson lagði grunninn að um miðja 19. öld. Samhliða þeirri umræðu laskaðist stjórnmálakerfið, m.a. með innkomu Pírata og nú síðast með tilraun til stofnunar sósíalistaflokks.
Ekkert af umræðunni, sem að ofan greinir, verður til á alþingi Íslendinga. Alþingi er endastöð umræðunnar en ekki upphaf. Og einmitt þess vegna er bráðsnjöll hugmynd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að stofna Framfarafélagið núna kl. 11 í Rúgbrauðsgerðinni.
Geta lokið störfum samkvæmt áætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.