Sögufölsun í þágu pólitísks rétttrúnaðar

Í miðborg Berlínar rís endurgerð höll frá barokktímanum. Þjóðverjar leggja sig fram um að vera trúir frumgerðinni. Verkið er langt komið.

Kúpull á þaki hallarinnar var eins og flestar opinberar byggingar í Evrópu frá miðöldum og fram eftir öldum skreyttur krossi, kristnu tákni.

Nú vilja talsmenn vinstrimanna og græningja breyta frá frumgerðinni og sleppa krossinum enda sé kristið trúartákn ekki í samræmi við pólitískan rétttrúnað.

Sögufölsun í þágu pólitísks rétttrúnaðar er skipulögð falsfrétt um fortíðina. Það eitt að láta sér slíkt til hugar koma er vísbending um hve vestræn menning, í þessu tilfelli þýska útgáfan, er komin langt frá uppruna sínum. Einu sinni átti sannleikurinn að gera manninn frjálsan. Núna heitir það að ef sannleikurinn er óþægilegur skal honum skipt út fyrir eitthvað sem betur hentar þá stundina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við þekkjum dæmi hér heima. Af og til koma upp raddir um að fjarlægja merki Íslandskonungs af Alþingishúsinu. Hann var að vísu konungur Dana líka, en engu að síður þjóðhöfðingi Íslands og stóð sem slíkur að byggingu hússsins.

Merkið er sögulegt tákn og ég man meira að segja þá tíð þegar við Íslendingar flögguðum fyrir kónginum (okkar og Dana) þótt við þráðu þann dag heitar en flest annað þegar við ættum okkur alíslenskan þjóðhöfðingja íslensks lýðveldis.  

Í Vestmannaeyjum var Skansinn, hernaðarmannvirki, sem formlega var reist af einvaldskonungi svonefndum á Íslandi. Að sjálfsögðu var Skansinn varðveittur eftir föngum, sem söguminjar. 

Í bakgrunni á fundi Reagans og Gorbatjofs í Reykjavík 1986 var mynd uppi á vegg af Bjarna Benediktssyni, sem var borgarstjóri í Reykjavík á stríðsárunum. 

Uppsetning myndarinnar hafði verið umdeild, en þarna var hún sögulegar minjar, að vísu minjar um yfirþyrmandi völd Sjálfstæðisflokksins áratugum saman í Reykjavík, en samt sögulegar minjar. 

Það var því að mínu mati rangt að breyta í neinu herberginu, sem hinn heimssögulegi fundur var haldinn í. 

Bolsévikar hötuðust við kristni og kirkjur en brutu þó ekki niður merk verk kristinna manna í Kreml. 

Í Eþíópíu hefur enginn dirfst að hrófla við stórmerkum minjum um koptana, hina kristnu menn þar í landi og helgiathafnir þeirra, ekki einu sinni Mengistu, sá ofstækisfulli kommúnisti. 

Hér á landi hafa þegar verið unnin skemmdarverk á minjum um hersetu Bandamanna í stríðinu í misskildri sýn á takmörk andófs gegn hernaði. 

Ómar Ragnarsson, 21.5.2017 kl. 10:30

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég er sammála að ekki eigi að afmá fortíðina. Vissulega gengu kommúnistar og fjölmargir einræðisherrar of langt í byggingu minnismerkja um foringja sína og sakar ekki að þeim sé eitthvað fækkað. En við eigum að virða söguna og varðveita hana þótt við séum ekki endilega sammála henni. Við værum illa stödd ef við hefðum ekki verk Homers til að varpa ljósi á upp úr hverju vagga vestrænnar menningar spratt.

Núna gengur pólitísk hreinsunarbylgja yfir í suðurríkjum Bandaríkjanna. New Orleans hamast við að fjarlægja styttur af hershöfðingjunum Lee og Grant og endurnefna torg og garða. En það er jafn nauðsynlegt að minnast þeirrar baráttu sem þeir stýrðu og þess sem hún stóð fyrir. Þrælahald var staðreynd og það er enginn bættari með að gleyma því. 

Ragnhildur Kolka, 21.5.2017 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband