Sósíalismi og alþjóðahyggja - Samfylking og Vinstri grænir

Staðan á vinstri væng stjórnmálanna eftir síðustu kosningar er að Vinstri grænir eru 15 prósent flokkur en Samfylkingin 6 prósent flokkur. Píratar, sem ekki er dæmigerður vinstriflokkur og tímabundið fyrirbrigði, liggur þar á milli.

Eftir kosningar er lítil umræða meðal vinstrimanna um stöðu mála. Í vor er það helst að frétta að Sósíalistaflokkur var stofnaður. Einkaflipp kveikir ekki í glæðum vinstrimenna.

Vinstriflokkar Evrópu eru vanda. Hvort heldur sé litið til Frakklands, Bretlands, Hollands eða Þýskalands eru flokkar með sósíalíska arfleifð í vörn.

Alþjóðahyggja er sögulegur rauður þráður sósíalismans. Karl Marx boðaði að öreigar allra landa skyldu sameinast. Móðurland sósíalismans árabilið 1921 til 1991 var Sovétríkin. Öflugir flokkar sósíalista/kommúnista í Frakklandi og Ítalíu áttu sovétið sem bakland.

Eftir fall Sovétríkjanna varð Evrópusambandið holdgervingur alþjóðahyggju sósíalista. Um tíma, í kringum aldamótin, virtist ESB stefna að Stór-Evrópu með sameiginlegan gjaldmiðil og sambandsríki.

Vandræði evrunnar eftir 2008 og Brexit í fyrra setja varanlegt strik í reikninginn. Ef ESB lifir af hremmingarnar verður það í smækkuðu formi. Annað tveggja mun hluti ESB-ríkjanna, t.d. þau sem nota evru, dýpka samstarfið eða að sambandið fletjist út í laustengdara viðskiptabandalag.

Vinstristjórn Jóhönnu Sig., eina hreina vinstristjórn lýðveldisins, veðjaði stórt á Evrópusmbandið með umsókninni 16. júlí 2009. Það veðmál tapaðist, umsóknin steytti á skeri áramótin 2012/2013. Í tvennum þingkosningum eftir strand alþjóðavæðingar íslenskra vinstrimanna tapa þeir stórt, fara úr samtals 50 prósent fylgi 2009 niður í 20 prósent 2016.

Samfylkingin tapaði mun meira fylgi en Vinstri grænir. Í Vinstri grænum var stuðningur við alþjóðahyggju Samfylkingar, þ.e. ESB-umsóknina, hálfvolgur í besta falli. Arfur Vinstri grænna er þjóðernissósíalískur, byggir m.a. á andstöðu við Nató og varðstöðu um íslenska menningu. Samfylkingin er í ætt við dæmigerða sósíaldemókrata á Norðurlöndum sem eru yfirleitt ESB-sinnaðir.

Engin umræða er á milli Samfylkingar og Vinstri grænna um sameiningu. Misheppnaða ríkisstjórn Jóhönnu Sig. breikkaði bilið milli þeirra. Fáir samnefnarar eru í erfðamengi flokkanna og engar stórar hugmyndir frá útlöndum koma þeim til bjargar.

Vinstri vængurinn í íslenskum stjórnmálum er brotinn. Sósíalísk alþjóðahyggja er munaðarlaus í Evrópu. Í fyrirsjáanlegri framtíð eru það mið- og hægriflokkar sem eiga sviðið í íslenskum stjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakaðu, ef ég fylgist ekki nógu vel með. Þú átt greinilega við síðustu kosningar, en í öllum skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar eftir að núverandi mynstur stjórnmálanna með nýja ríkisstjórn varð til, hafa Vg verið með nokkuð stöðugt 24% fylgi. 

Ómar Ragnarsson, 13.5.2017 kl. 10:58

2 Smámynd: Steinarr Kr.

Ómar, skoðanakannanir eru í besta falli samkvæmisleikur.

Steinarr Kr. , 13.5.2017 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband