Sunnudagur, 7. maí 2017
Alþjóðavæðing, jöfnuður og hagvöxtur: Framsókn í dauðafæri
Stórkanónur hagfræðinnar, t.d. Joseph Stiglitz, endurskoða viðteknar hagfræðikenningar í ljósi pólitískrar þróunar síðustu ára og áratuga. Til skamms tíma var alþjóðavæðing trúarsetning í hagfræðibókmenntum. Önnur trúarsetning var að jöfnuður hamlaði hagvexti.
Vegna trúarsetninganna óx ójöfnuður í mörgum vestrænum ríkjum. Úr þessum jarðvegi spratt andúð á alþjóðahyggju, sem leiddi til sigurs Trump í Bandaríkjunum, Brexit og uppgangs stjórnmálamanna eins og Le Pen í Frakklandi.
Vinstrimenn og frjálslyndir töpuðu mest á framgangi Trumpara á vesturlöndum. Sósíaldemókratar ánetjuðust alþjóðahyggju Evrópusambandsins; frelsi fjármagns var tekið umfram jöfnuð.
Stiglitz er í uppreisn gegn viðteknum hagkenningum. Hann andmælir að jöfnuður hamli hagvexti, segir þvert á móti að jöfnuður örvi hagvöxt og vísar til Norðurlandanna. Óheft alþjóðavæðing skili ójöfnuði og þess vegna þurfi að koma böndum á hana - en frjáls alþjóðaverslun sé forsenda framfara. Stefna Trumpara muni ganga af henni dauðri.
Heimfært upp á Ísland er endurskoðun Stiglitz á hagkenningum vatn á myllu Framsóknarflokksins umfram aðra. Sígilda Framsókn stígur varlega til jarðar í alþjóðavæðingu, er hlynnt jöfnuði og vill skapa réttar forsendur fyrir hagvöxt.
En Framsókn þarf vitanlega foringja til að nýta sér dauðafærið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.