Laugardagur, 6. maí 2017
Munngælur og landráð
Trump forseti Bandaríkjanna er reglulega ásakaður um landráð í fjölmiðlum þar vestra. Hann er sakaður um að hafa stolið forsetakosningunum með hjálp Pútín Rússlandsforseta. Álitsgjafar, stjórnmálamenn, blaðamenn og þáttastjórnendur endurtaka þessar ásakanir í mörgum útfærslum daginn út og inn.
Brigsl um landráð forsetans fá engin formleg viðbrögð frá stjórnvöldum eða eftirlitsstofnunum. Umræða af þessu tagi er talin hluti af hversdagspólitík í landi frjálshuga manna og hugaðra.
En að segja talfæri Trump best sniðin fyrir hólk Rússlandsforseta - það er einum of mikið af því góða. Þáttastjórnandinn Stephen Colbert fór yfir strikið þegar hann ýjaði að munnmökum forsetanna tveggja með Trump í undirgefna hlutverkinu.
Samkvæmt Guardian rannsakar FCC, eftirlitsnefnd fjölmiðla, flimt Colbert í kjölfar fjölda kvartana.
Stjórnmálamenning í landi þar sem landráðabrigsl þykja sjálfsögð en munngælur ekki er komin töluvert út í móa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.