Trú, afneitun og vísindi

Vísindi og trúarbrögð eiga það sameiginlegt að boða lífshætti. Við reykjum helst ekki enda vísindalega sanna að reykingar valda skaða. Við fyrirgefum því okkur er kennt að haturshugur sé óhollur.

Lengi vel var trúin ráðandi í lífsvenjum. Miðalda-Íslendingar snæddu ekki hrossakjöt og múslímar borða ekki enn svín. Á seinni tímum eru vísindin mótandi afl, líkt og trúin var fyrrum.

Og alveg eins og í trúmálum er þeir sem efast um ,,viðurkenndar" kennisetningar vísinda kallaðir afneitarar. Vísir segir frá umræðu um afneitara loftslagsvísinda þar sem pólitík, trú og vísindi eru í hrærigraut líkt og trúardeilur í lok miðalda.

Loftslagsvísindi eru fremur ung vísindagrein. Viðfangsefni greinarinnar er náskylt trúarbrögðum, sjálft lífið á jörðinni.

Þegar stórsannleikur er í húfi er gott að hyggja að undirstöðunni. Jay Richards tekur saman 14 atriði sem gilda um vísindaumræðu almennt og loftslagsvísindi sérstaklega. Fyrsta atriðið grípur á kjarna málsins. Þegar óskyldum vísindalegum niðurstöðum er blandað saman verður til óvísindaleg niðurstaða.

Í stuttu máli: heimurinn er að hlýna, um það er almenn samstaða. En það er ekki samstaða um ástæður hlýnunar. Á jörðinni skiptust á hlýskeið og kuldaskeið löngu áður en maðurinn tók að nota jarðefnaeldsneyti. En hreintrúarmenn í loftslagsumræðunni telja brennslu á olíu og bensíni valda loftslagsbreytingum.

Washington Post segir frá baráttu afneitara og hreintrúarmanna um hylli páfa í umræðunni um loftslagsmál. Baráttan ætti að minna okkur á að heilagur sannleikur er ekki til, hvorki í trúmálum né vísindum. Sannleikur kynntur sem heilagur er fjarska brothættur. Marteinn Lúther sýndi fram á það fyrir hálfu árþúsundi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Vísindi og vísindamenn eru ekki það sama.

Vísindi boða ekki neitt. Hins vegar geta menn öðlast trú eða skoðanir sem þeir telja byggðar á vísindum og þær geta þeir boðað.

Hörður Þormar, 1.5.2017 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband