Karlaveldi og hnignun siðmenningar

Rómarveldi byggði á bændaher, feðrahyggju og aðlögunarhæfni. Rómverjar tóku verkfræði Etrúra, grísk goð og viðskiptahætti Föníkumanna og gerðu úr þúsund ára stórveldi. Goðsagan um nauðgun sabínsku kvennanna er Boko-Haram kvennaveiðar forsögulegs tíma.

Feðraveldi Rómverja fékk framhaldslíf í kristni, eingetinn sonur þríkarlkynjaðs guðs þar sem konan var aðeins útungunarvél. Eftir miðaldir, sem Evrópa notaði til að endurskipuleggja sig, birtist heimsvaldastefna Rómar í líki landvinninga kristinna Vestur-Evrópuríkja í öllum heimsálfum. Í kjölfar nýlendustefnu kom iðnbylting og nýjungar í stjórnskipun, samanber amerísku og frönsku byltingarnar. Allt var þetta karlamiðað, aðeins seint og um síðir var konum hleypt í atvinnurekstur og stjórnmál.

Karlmennska komst í kreppu á síðustu öld. Tvær heimsstyrjaldir og skipulögð þjóðarmorð á minnihlutahópum þóttu fullmikið af því góða. Sagnfræðingurinn Philipp Bloom segir reyndar að ein ástæða heimsstyrjaldarinnar fyrri sé viðbragð við hnignun karlmennskunnar. Frá því sjónarhorni eru heimsstríðin ekki skelfilegur hápunktur karlmennsku heldur krampakennd andspyrna gegn kvenvæðingu.

Eftir stórstríðin tvö reyndu menn að haga sér og skiptu heiminum upp í austur og vestur, kapítalisma og kommúnisma. Smástríð, Kórea og Víetnam, voru undantekningar. Kjarnorkuvopnaður friður var reglan.

Einföld skipting heimsins í tvo hluta er háttur karla, gott eða vont, engin blæbrigði þar. Hrun kommúnismans fyrir aldarfjórðungi kippti stoðunum undan skiptingunni. Alþjóðastjórnmál tóku  að líkjast verslunarferð kvenna, þar sem allt var á huldu hvað á að kaupa og til hvers.

Heimurinn beið ekki lengur eftir skilaboðum frá Washington, Brussel eða Moskvu um hvað má og hvað ekki. Í miðausturlöndum blossaði upp stríðsbál múslímskrar karlamenningar. Vestræn ríki bera töluverða ábyrgð, Bandaríkin sérstaklega, sem gerðu sér að leik að steypa af stóli einræðisherrum eins og Saddam Hussein og Gadaffi án þess að hafa hugmynd um hvað tæki við.

Óöldin í miðausturlöndum afhjúpar vestræna veikleika. Evrópa er í hnignun, bæði veik inn á við og á útstöðvum. Bandaríkin þora ekki að heyja stríð án útgönguleiða. Samskiptin við Rússland eru í frosti vega þess að Pútín þykir of mikil karlremba.

Heimsveldi er skammaryrði, karllægt og forpokað. Kristnu trúargildin eru farin veg allrar veraldar. Uppeldi snýst um að verja börn fyrir köldum staðreyndum lífsins. Pólitískur rétttrúnaðar bannar að kalla hlutina réttum nöfnum. Ross Barkley er górilla á fótboltavellinum, burtséð hvaðan hann er ættaður.

Siðmenningu hnignar þegar þeir sem bera hana uppi vita ekki lengur fyrir hvað hún stendur. Áratugina eftir seinna stríð var reynt að gera hugmyndina um algild mannréttindi að nokkurs konar hjáguði. En algild mannréttindi fela í sér að hver og einn gerir kröfur um að heimurinn lúti persónulegum dyntum. Algild mannréttindi gera ekki ráð fyrir samfélagi, aðeins réttindum einstaklinga. Lífið verður í anda Hobbes: einangrað, fátækt, kvikindislegt, ofbeldiskennt - og stutt.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Góður. Las reyndar að Rómverjar hefðu mikið stólað á málaliðaheri meðan þeir höfðu efni á...

Guðmundur Böðvarsson, 15.4.2017 kl. 11:53

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er ekki annað að sjá en að lokaorð pistilsins með hrikalegri lýsingu á hörmungum sem gildi mannréttinda færa af sér og tilvitnun í Hobbes séu lofsöngur um þjóðfélag í anda Stóra bróður Orwells þar sem mannréttindi eru fótum troðin.

Sérkennileg páskahugvekja.  

Ómar Ragnarsson, 15.4.2017 kl. 18:34

3 Smámynd: Jón Árni Bragason

Skemmtilegur pistill og þá sérstaklega með tilliti til tilvitnanna.  Það væri gaman að vita a) hversu margir lesenda skilja tilvitnanirnar, b) hversu margir þeirra gera það ekki en lesa sér til með því að smella á linkana, c) hversu margir telja sig ekki þurfa að skilja eitt eða neitt, og d) hversu margir vita ekki að linkar og undirstrikaðir linkar bera með sér fróðleik.

Jón Árni Bragason, 15.4.2017 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband