Fimmtudagur, 30. mars 2017
Spurningalýðræði Pírata
Allt frá Forn-Grikkjum snýst pólitík um valkosti. Aþenskir stjórnmálamenn töluðu á þjóðfundum og mæltu fyrir þessum eða hinum valkosti við úrlausn mála. Öll vestræn stjórnmál byggja á greiningu á ástandi og tillögum til að breyta eða festa í sessi stöðu mála. Spurningar út í loftið án svara eru merkingarleysa.
Píratar á Íslandi kunna ekki einföldustu grunnatriði stjórnmála. Píratar hafa enga skoðun, þeir vilja bara ,,spyrja þjóðina." Píratar vita ekki hvort þeir vilja í Evrópusambandið, þeir vita ekki einu sinni hvort þeir vilja sækja um aðild. Þeir ætla að spyrja þjóðina.
Til að lýðræði verði annað en markleysa þarf að vera staðfastur vilji og sannfæring á bakvið valkosti sem kosið er um. Það dettur engum í hug, nema kannski Pírötum, að kjósa um hvort það eigi að vera sól á morgun eða rigning, eða hvort heimurinn eigi að vera friðsamur eða í ófriði.
Spurningalýðræði Pírata gerir stjórnmál að leikhúsi fáránleikans þar sem spurningum er svarað með spurningum: eigum við ekki að spyrja þjóðina hvort hún vilji þjóðaratkvæðagreiðslu? Eða þykjast Píratar einir hafa rétt til að spyrja spurninga?
Vilja kjósa um nýjar viðræður við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Var þá ekki tómt rugl hjá Cameron að láta bresku þjóðina kjósa um Brexit?
Ómar Ragnarsson, 30.3.2017 kl. 09:04
Brexit-spurningin, Ómar, var ótvíræð: áttu Bretar að vera áfram inni í Evrópusambandinu eða fara út. Ekki að kanna málið eða leita eftir samningum.
Breska þjóðin stóð frammi fyrir tveim kostum og ræddi málin á þeim forsendum.
Hliðstæða spurning á Íslandi núna væri þessi: Á þjóðin að sækja um inngöngu í Evrópusambandið eða ekki?
En Píratar eru falskir. Þeir vilja spyrja um viðræður sem ekki eru í boði - aðeins aðlögunarferli.
Páll Vilhjálmsson, 30.3.2017 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.