Tvær spurningar um falsfréttir

Ógna falsfréttir veruleikaskynjun fólks? Eða eru falsfréttir merki um breyttan veruleika? Forstjóri Apple svarar fyrri spurningunni játandi, líkt og margir aðrir, og vill skera upp herör gegn falsfréttum. En seinni spurningin kemst nær kjarna málsins.

Fréttir eru fyrstu drög sögunnar. Þær segja tíðindi dagsins og verða síðar efniviður sagnfræðinga. En fréttir eru líka fyrsta uppkast framtíðarinnar. Fréttir segja ekki aðeins hvað gerðist áðan, í gær eða fyrradag. Þær boða það sem koma skal. Skoðanakannanir fyrir kosningar eru dæmi um tíðindi óorðins veruleika.

Um leið og fréttir eru sagðar af skoðanakönnun er spáð í það sem koma skal. Meinið er að við vitum ekki framtíðina. Fréttir um framtíðina eru óskhyggja, nú eða bölmóður ef maður er svartsýnn. Sem slíkar eru þær allar falsfréttir – enginn veit óorðna tíð.

Það eru ekki aðeins skoðanakannanir sem spá í framtíðina. Pólitískir atburðir, Brexit og kjör Trump, leiða til stórframleiðslu á fréttum um langtímaáhrif þeirra. Strangt tekið eru þetta allt falsfréttir.

Væntingar fólks byggja á skynjun þess í samtímanum og vangaveltum um framtíðina. Veruleg óánægja blasir við í samtímanum. Stórir hópar fólks eru óánægðir og vilja breytingar. Aðrir óttast breytingar, finnst þær ógna hagsmunum sínum.

Fréttir um framtíðina spila á væntingar og ótta fólks um breytingar. Eftirspurn er eftir framtíðarfregnum og falsfréttir sjá um framboðið. Viðbrögðin við falsfréttum skapa nýjan pólitískan og félagslegan veruleika. Þess vegna eru þær ómótstæðilegar. Veldisvöxtur falsfrétta er fyrirsjáanlegur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband