Trump: síðasti forsetinn - fyrsti keisarinn

Bandaríska lýðveldið gæti farið sömu leið og það rómverska fyrir tvö þúsund árum. Tilskipanir Trump forseta innleiða nýja stjórnunarhætti sem sniðganga þingið og leiða til andspyrnu dómstóla. Meiri líkur en minni eru að Trump múlbindi þingið og brjóti dómstólana á bak aftur.

Múslímabann Trump leiðir til klofnings heima og heiman. New York Times segir frá íröskum foringja í umsátrinu í Mósúl sem kveðst ekki nenna að berjast fyrir Bandaríkin þegar hann og hans líkar fái ekki ferðaheimild til fyrirheitna landsins - Ameríku.

Múslímar eru ekki eini skotspónn Trump, langt í frá. Ritstjóri Spiegel í Þýskalandi segir Bandaríkjanaforseta ætla sér að ganga af Evrópusambandinu dauðu. Trump trúi ekki á fjölþjóðasamvinnu og líti á ESB sem úrelt fyrirbæri. Í austri gæti orðið til bandalag við Pútín Rússlandskeisara, afsakið forseta, um nýskipan Evrópu.

Í Guardian er frásögn af aðalhugmyndafræðingi Trump, Steve Bannon, sem ólíkt umbjóðanda sínum les bækur, og er sannfærður um að stríð séu heilsusamleg fyrir nýja heimsskipan.

Rómverska lýðveldið lauk sögu sinni við upphaf tímatals okkar. Sá sem lagði grunninn að keisaratíma Rómar, Júlíus Sesar, var myrtur af þingmönnum á tröppum þinghúss Rómar.

Trump verður ekki fyrsti keisari Bandaríkjanna. Til þess er hann of gamall. Átökin um nýskipan Bandaríkjanna, og þar með heimsins alls, eru rétt hafin. Áður en nýtt fyrirkomulag tekur við því gamla á mikið vatn eftir að renna til sjávar.

Einu er hægt að slá föstu. Eftir Trump, hvort sem hann nær fullu einu kjörtímabili eða tveim, verða Bandaríkin ekki þau sömu og áður. Umbreytingar stórvelda taka tíma. Í Róm var borgarastyrjöld eftir morð Brútusar og félaga á Júlíusi; Frakkland og Evrópa loguðu í byltingarstríðum í tvo áratugi fyrir og eftir 1800 og fæðing Sovétríkjanna tengdi saman tvö heimsstríð á fyrri hluta síðustu aldar.

Eins og vestfirska kerlingin sagði þegar hún frétti af Evrópu í stríðsham sumarið 1914: það er ég viss um að þeir hætta ekki þessum djöfulgangi fyrr en þeir drepa einhvern.


mbl.is Lögbann á ferðabann Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrossabrestur

Þetta er allt í boði góða fólksins, nú á þetta eftir að breiðast út um Evrópu, það byrjar með að Marie Le Pen þegar hún verður kosinn forseti Frakklands.

Hrossabrestur, 4.2.2017 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband