Föstudagur, 20. janúar 2017
Falsfréttamaður játar
Stjórnmál eru ýkjur, hálfsannleikur og lygar. Falsfréttir eru aðeins eðlilegt framhald af hversdagslegri stjórnmálaumræðu, segir maðurinn sem bjó til fréttina um að Hillary Clinton væri staðin að kosningasvindli.
Falsfréttamaðurinn Cameron Harris, 23 ára nýútskrifaður úr háskóla með próf í stjórnmálafræði, settist niður við eldhúsborðið heima hjá og keypti fyrir 5 dollara netlén. Hann skrifaði frétt um að fundist hefðu þúsundir atkvæðaseðla merktir Clinton í vöruhúsi í Ohio. Harris skáldaði upp nafni heimildamanns og fann ljósmyndir af kjörkössum á netinu. Þegar fréttin var tilbúin birtist hún á falsfréttamiðli Harris fimm vikum fyrir forsetakosningarnar í nóvember.
Til að auka útbreiðsluna bjó Harris til nokkrar falsaðar Facebook-síður og endurbirti falsfréttina. Það tók Harris 15 mínútur að semja fréttina. Innan skamms var hann kominn með fimm þúsund dollara í auglýsingatekjur enda voru þeir margir sem trúðu fréttinni og endurbirtu á samfélagsmiðlum. Auglýsingatekjur á netmiðlum ráðast af útbreiðslu.
Embættismenn í Ohio hófu rannsókn á kosningasvindlinu en það gerði ekki annað en að auka á trúverðugleika falsfréttarinnar.
Cameron Harris segist hafa búið til falsfréttir, bæði um kosningasvindlið og aðrar, til að fá tekjur. Hann hyggst stofna pólitíska ráðgjafaþjónustu í kringum sérfræðiþekkinguna sem hann býr yfir.
Athugasemdir
Hvað er þá eðlilegra en snúa sér að ktistninni,þar sem frelsarinn leggur ofur áherslu á sannleikann.
Helga Kristjánsdóttir, 20.1.2017 kl. 12:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.