Sunnudagur, 25. desember 2016
Síðasta símtal kalda stríðsins - 25 ára afmæli orustunnar um Evrópu
Sovétríkin liðuðust í sundur fyrir 25 árum. Tveim klukkustundum áður en Mikhail Gorbatsjov, síðasti leiðtogi kommúnistaríkisins, sagði af sér hringdi hann í George W. Bush Bandaríkjaforseta. Vinátta forsetanna tveggja er rauður þráður í gegnum símtalið.
Eftir fall Sovétríkjanna var talið að sambúð Rússlands og Bandaríkjanna gæti batnað. En það fór á annan veg. Bandaríkin, í samstarfi við Evrópusambandið og Nató, þrengdu að öryggishagsmunum Rússlands og settu upp herstöðvar við vesturlandamæri Rússa.
Mótmæli Rússa voru að engu höfð. Þegar Úkraína stefndi í faðm Bandaríkjanna gripu Rússar inn í atburðarásina, innlimuðu Krímskaga og studdu uppreisnarhópa í austurhéruðum Úkraínu.
Rússar litu svo á að sívaxandi veldi Bandaríkjanna, ESB og Nató myndi leiða til einangrunar Rússlands og hnignunar. Höfundur að nafni Alexander Dugin greindi stöðu mála þannig Evrópa yrði vígvöllurinn á milli Bandaríkjanna og Rússa. Innan Evrópusambandsins er sannfæring um að Rússar styðji stjórnmálaöfl sem vilja endalok ESB einmitt út frá þessari forsendu. Bók Dungin, Fjórða pólitíska kenningin, á eftir kommúnisma, kapítalisma og fasisma, er sögð leiðarvísir að Evrasíuríki Rússlands og Evrópu er stæði andspænis Bandaríkjunum.
Sigri Donald Trump í Bandaríkjunum er fagnað í Moskvu. Á heimskorti rússneskra ráðamanna er Evrópa enn vígvöllurinn og Trump færir álfuna nær Rússlandi. Sannfærðir ESB-sinnar, eins og Joschka Fischer, fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, eru sama sinnis og tala um vestræn endalok.
Í þessu ljósi ber að skilja áhyggjuleysi Rússa af tilkynningu Donald Trump um að stórauka kjarnorkuvígbúnað Bandaríkjanna. Kjarnorkuvopn styrkja ekki stöðu Bandaríkjanna í Evrópu heldur veikja. Trump ætlar sér samhliða að draga úr stuðningi við Nató sem er helsta verkfæri vestrænna ríkja í útþenslunni til austurs. Vinstrimenn í álfunni eru með böggum hildar og spyrja hvað bíði Evrópu í bandalagi Pútín og Trump.
Aðeins Rússar trúðu á sigur Trumps | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nei, nú fór sagnfræðingurinn með það, auðvitað var það George H. W. Bush.
Ragnhildur Kolka, 26.12.2016 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.