Castro og Trump - Ísland og Kúba

Bandaríkin lýstu Suður-Ameríku sem áhrifasvæði sitt með Monroe-yfirlýsingunni 1823. Fidel Castro steytti hnefanum framan í ofurveldi Bandaríkjanna í þessum heimshluta og Kúba galt fyrir með áratugalangri einangrun.

Kúba komst úr kuldanum í stjórnartíð þess forseta Bandaríkjanna sem nú víkur fyrir Donald Trump. Líkt og Castro er Trump maður með hnefann á lofti í þágu hagsmuna föðurlandsins. Bandaríkin eru hlunnfarin, segir Trump, og boðar utanríkisstefnu sem er með öll einkenni einangrunarhyggju.

Monroe-yfirlýsingin var upphaflega sett fram til að bægja gömlu evrópsku nýlenduveldunum Spáni, Frakklandi og Bretlandi frá vesturheimi. En hún var í fullu gildi þegar Sovétríkin reyndu að efla áhrif sín í heimshlutanum með bandalagi við Castro og Kúbu. Við lá að kalda stríðið breyttist í þriðju heimsstyrjöld vegna deilunnar.

Þótt Castro-fjölskyldan ráði enn ferðinni á Kúbu er hnefanum ekki lengur steytt framan í forræði Bandaríkjanna í Suður-Ameríku. Trump forseti má vita að Monroe-yfirlýsingin gildir enn í bakgarði Bandaríkjanna.

Önnur spurning er um endimörk bandarísks áhrifasvæðis í austri. Trump hyggst draga úr viðbúnaði Bandaríkjanna í Evrópu. Hernaðarbandalag Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna, Nató, sem stofnað var til í kalda stríðinu er komið langt inn í Austur-Evrópu og ógnar þar öryggishagsmunum Rússa. Bandaríkin fjármagna 70 prósent af rekstri Nató og Trump boðar niðurskurð sem mun fyrr heldur en seinna kalla á undanhald Nató.

Tuttugu árum áður en Castro tók völdin á Kúbu ræddu Íslendingar að stofna lýðveldi og segja endanlega skilið við lítið evrópskt nýlenduveldi, Danmörku. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins segir um einn aðdraganda þess:

12. júlí 1940
Íslendingar spyrja bandarísk stjórnvöld óformlega hvort þau muni verja Ísland samkvæmt Monroe-kenningunni.

Íslensk stjórnvöld fengu svör sem réttlættu gerð herverndarsamnings við Bandaríkin. Í framhaldi urðu Íslendingar stofnaðilar Nató.

Við eigum sem sagt Monroe-yfirlýsinguna sameiginlega með Kúbu. Og ekki líklegt að það breytist þótt Nató lendi í ógöngum.

 


mbl.is Fidel Castro látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband