Miðvikudagur, 16. nóvember 2016
Þvinguð leikjaröð Vinstri grænna
Formaður Vinstri grænna stendur frammi fyrir þvingaðri leikjaröð í stjórnarmyndunarviðræðum. Trú fyrri yfirlýsingum verður Katrín Jakobsdóttir að leita eftir samstöðu vinstriflokkanna um ríkisstjórn.
Vinstriflokkarnir fjórir eru með 27 þingmenn á alþingi en 32 þarf í meirihluta. Ef Viðreisn yrði boðið með væri þingmannafjöldinn kominn upp í 34 en flokkarnir fimm. Ríkisstjórn þessara flokka yrði hvorki til vinstri né lífvænleg.
Þar á eftir yrði Katrín að máta Vinstri græna við Sjálfstæðisflokkinn. Flokkarnir eru til samans með 31 þingmenn og yrðu að fá einn af þessum þrem með í stjórn: Framsókn, Bjarta framtíð eða Viðreisn.
Pólitískt yrði erfiðast að selja baklandi Vinstri grænna stjórn með tveim hægriflokkum, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Auðveldast væri að fá Bjarta framtíð með í púkkið. Vandinn er að Björt framtíð gerði sig að pólitískum síamstvíbura Viðreisnar strax eftir kosningar.
Rökréttast er að Framsókn yrði þriðja hjól Katrínar og Bjarna Ben. En pólitík er ekki rökæfing heldur list hins mögulega, eins og járnkanslarinn Bismarck sagði forðum daga.
Katrín á fund forseta á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.