Sunnudagur, 30. október 2016
Sjálfstæðisflokkur með eða án Vinstri grænna
Sjálfstæðisflokkurinn er fyrsti kostur flestra kjósenda í öllum kjördæmum. Þjóðarflokkur landsins hlýtur að vera burðarás næstu ríkisstjórnar.
Sjálfstæðisflokkurinn getur myndað miðhægristjórn með Saga class útgáfu sinni, Viðreisn, og Framsóknarflokknum. Slík stjórn er þó ekki skynsamleg, hvorki í bráð né lengd. Án aðkomu vinstriflokka að ríkisstjórn er stór kjósendahópur útilokaður. Og það er hvorki klókt né lýðræðislegt.
Nærtækast er að Sjálfstæðisflokkur bjóði Vinstri grænum til stjórnarsamstarfs. Þriðji flokkurinn í þeirri samsteypustjórn gæti verið Framsókn, Björt framtíð eða Viðreisn.
Ef Vinstri grænir eru ófærir um að starfa með Sjálfstæðisflokknum kæmi Björt framtíð til álita ásamt Framsóknarflokknum.
Vinstri grænir verða að gera upp við sig hvort þeir séu andófsafl af pírataætt eða ábyrgur stjórnmálaflokkur.
Útilokar eingöngu Pírata | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Össur Skarphéðinsson lét hafa eftir sér fyrir kosningar að Vinstri Grænir væru tilbúnir í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Þannig sá valmöguleiki er í boði.
Einar Haukur Sigurjónsson, 30.10.2016 kl. 15:14
Viltu eyða færslu minni, ég var að muna vitlaust. Biðst afsökunar. :(
Einar Haukur Sigurjónsson, 30.10.2016 kl. 15:18
Sjálfstæðisflokkur með Vinstri grænum er eins og þaninn sportbíll með VG handbremsuna á: kemst aldrei almennilega af stað. Aftur kæmist gott gengi XD ekki almennilega til skila og vinstra hreðjartakið að hætti Samfylkingar í Geirs Haarde- stjórnarinni yrði endutekið. Vinstri græn vilja ekki hagvöxt eða frekari stóriðju og virkjanir, sem takmarkar vaxtagetu verulega.
Katrín hefði töglin og hagldirnar í slíkri stjórn.
Ívar Pálsson, 30.10.2016 kl. 15:21
Gallinn við Vinstri græna er að þótt Steingrímur og Svandís hafi verið læst inní kústaskápnum í kosningabaráttunni, þá hefur þeim nú verið hleypt út. Held að of margir muni enn fanatíkina sem keyrði þau áfram. Fanatík sem sópaði burt lögum og hagsmunum þjóðarinnar til þess eins að sýna vald sitt.
Ragnhildur Kolka, 30.10.2016 kl. 16:51
Frétt af mbl. í dag: "Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands er ekki búist við því að forseti Íslands feli neinum formanni þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga fulltrúa á þingi umboð til ríkisstjórnarmyndunar í dag."
Ef orðunum "í dag" er sleppt úr enda málsgreinarinnar, þýða þessar upplýsingar frá Bessastöðum:
"Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands má búast við því að Benedikt Zoëga fái umboð til ríkisstjórnarmyndunar."
- Pétur D.
Aztec, 30.10.2016 kl. 16:57
Hverju orði sannara, Ragnhildur! Svandís Svavarsdóttir hélt Suðurlandi, Suðurnesjum og þjóðinni í lás í mörg ár í Þjórsármálinu sem hún var dæmd fyrir ranggjörðir sínar en heldur ótrauð áfram. Vinstri græn myndu sýna álíka óbilgirni með því að krefjast þess að hálendið yrði að þjóðgarði, þannig að þau hefðu alræðisvald með sauðskinnsskóa- stefnu sína.
Ívar Pálsson, 30.10.2016 kl. 17:01
Ég skil sjónarmið þeirra sem líst ekki á Vg sem samstarfsflokk. Á hitt er þó að líta að Sjálfstæðisflokkur og Vg eru hvor á sínum enda pólitíska litrófsins. Slík stjórn væri málamiðlunarstjórn í veiku pólitísku landslagi og til þess fallin að auka traust almennt á stjórnmálum. Minni líkur væru á að pólitísk upphlaup heppnuðust og meiri líkur á að friður gæti skapast um landsstjórnina, að maður segi ekki kjölfesta.
Það er tortryggni bæði innan Sjálfstæðisflokksins og Vg í garð samstarfs þessara flokka. Að vinna bug á þeirri tortryggni og finna málamiðlun í helstu málum er gott framlag til stjórnmálanna. Og við þurfum gott framlag til þeirra.
Páll Vilhjálmsson, 30.10.2016 kl. 17:27
Páll, VG og XD eru vatn og bensín, blandast ekki. Tilgangurinn með því að kjósa annan flokkinn vegna málefnis er horfinn ef andstæði flokkurinn fær ráðherraembættið sem um ræðir. Ráðherrann ræður.
Ívar Pálsson, 30.10.2016 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.