Mánudagur, 3. október 2016
Brexit drepur EES-samninginn
Bretar ætla ekki inn í EES-samninginn um leið og þeir fara út úr Evrópusambandinu. Theresa May forsætisráðherra Breta kynnti í ræðu í gær að formlegt útgönguferli Bretlands hæfist ekki seinna en í lok mars á næsta ári. Hún sagði að Bretar myndu taka innflytjandamál alfarið í sínar hendur og það er ósamrýmanlegt EES-samningnum.
Í Noregi er grannt fylgst með úrsögn Breta. Norðmenn halda uppi EES-samningnum, en Ísland og Lichtenstein fylgja með. Aftenposten í Noregi segir Breta ekki ætla að fylgja norska fyrirkomulaginu (les EES-samningnum). Það þýðir að fjöldahreyfingin Nei til EU í Noregi mun leggja höfuðáherslu á uppsögn EES-samningsins.
EES-samningurinn var á sínum tíma gerður fyrir Norðurlönd sem millileikur áður en þau færu inn í Evrópusambandið. Svíar og Finnar fóru inn en Norðmenn og Ísland ekki. Þegar fyrir liggur að Bretar munu ekki ganga inn í EES-samstarfið er útséð með þetta fyrirkomulag. Bretar og Evrópusambandið munu á næstu tveim árum koma sér saman um hvernig samskiptum þeirra á milli skuli háttað til framtíðar. Það felur í sér að EES-samstarfið verður hornreka þar sem Noregur og Ísland munu jafnframt semja við Bretland um viðskipti og aðra samvinnu.
Þegar fótunum er kippt undan EES-samstarfinu er tímabært að íslensk stjórnvöld í samvinnu við norsk leggi drög að nýju samstarfsfyrirkomulagi gagnvart Evrópusambandinu.
Athugasemdir
Ég tel að við eigum að afskrifa EES sem var alltaf Landráð frá byrjun og meira að segja Össur er búinn að viðurkenna það í dag.
Valdimar Samúelsson, 3.10.2016 kl. 09:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.