Miðvikudagur, 28. september 2016
Skapandi eyðilegging kapítalismans og evran
Seðlabanki Evrópu heldur fjármálakerfi evru-ríkja á floti með núllvöxtum. Deutsche Bank og fleiri bankar eru gjaldþrota og þrífast aðeins í skjóli seðlabankans. Starfandi bankar, sem eru gjaldþrota, hamla vexti efnahagskerfisins vegna þess að þeir lána ekki fé til framkvæmda.
Hans-Werner Sinn er áhrifamikill þýskur hagfræðingur. Hann segir tíma til kominn að leyfa skapandi eyðileggingarmætti kapítalismans að hreinsa til í dánarbúi evru-ríkjanna. Ókeypis peningar eru aðeins ávísun á froðuhagkerfi þar sem ekki er innistæða fyrir hækkunum undanfarinna ára á verðbréfum og fasteignum.
Skapandi eyðilegging felur í sér stórfellt gjaldþrot í fjármálakerfinu og rekstri sem ekki skilar eðlilegum arði. Jafnframt að þau ríki sem ekki þola evru-samstarfið taki upp eigin gjaldmiðla og öðlist þannig samkeppnishæfi.
Evran er gervigjaldmiðill í þeim skilningi að hún mælir ekki raunstöðu hagkerfis þeirra ríkja sem notast við gjaldmiðilinn. Eina leiðin til að halda evru-samstarfinu gangandi í núverandi mynd er að færa efnahagskerfið undir áætlunarbúskap. Sovétríkin sálugu eru minnisvarði um slíka tilraun.
Hlutabréfin ekki lægri í tugi ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.