Fjórflokkurinn er félagsauður

Fjórflokkurinn er niðrandi orð, notað um stjórnmálakerfið sem þróaðist hér á millistríðsárunum og fylgir lýðveldinu frá stofnun. Orðið gefur til kynna að ,,sami rassinn sé undir þeim öllum" og engu breyti hvaða flokkar myndi ríkisstjórn.

Hruni fjórflokksins er reglulega spáð síðustu tvo til þrjá áratugina. Netmiðillinn Kjarninn endurvinnur tugguna í kosningaspá.

Stjórnmálakerfi lýðveldisins, svokallaður fjórflokkur, hefur staðið af sér allar atlögur. Eina ástæðan fyrir þessari seiglu er að fyrirkomulagið gagnast þjóðinni, að öðrum kosti væri það ekki enn við lýði.

Stjórnmál snúast í grunninn um tvennt, hugmyndir og hagsmuni. Innan fjórflokksins rúmast nær allar hugmyndir og meginhagsmunir þeirra hópa sem mynda íslenskt samfélag. Á vettvangi fjórflokksins, bæði innan flokkanna og á milli þeirra, fer fram málamiðlun milli hugmynda og hagsmuna. Enginn fær öllu sínu framgengt, hvort sem um er að ræða hugmyndir eða hagsmuni, enda brýtur einræði í bága við málamiðlanir.

Þjóðin fær reglulega, ekki skemur en á fjögurra ára fresti, tækifæri til að kjósa um hugmyndir og hagsmuni sem stjórnmálaflokkar setja á oddinn. Þetta fyrirkomulag heitir lýðræði og er ekki fullkomið - en það besta sem völ er á.

Fjórflokkurinn er sameiginlegur pólitískur félagsauður þjóðarinnar, sem við ættum að bera virðingu fyrir. Jafnvel þótt okkur líki misjafnlega við einstaka hluta fjórflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband