Mánudagur, 29. ágúst 2016
Samfylkingin á röngum enda sögunnar
Kristrún Heimisdóttir er stofnfélagi Samfylkingar. Ásamt sitjandi borgarstjóra heimsótti hún, um síðustu aldamót, stofnfundi samfylkingarfélaga víða um land og kynnti sjónarmið ungs fólks. Fimmtán árum seinna og gott betur segir Kristrún: Samfylkingin er ekki gott samfélag og þess vegna getur flokkurinn ekki lagt samfélaginu gott til.
Samfylkingin er vont samfélag vegna þess að flokkurinn er á röngum enda sögunnar. Samfylkingin varð frjálshyggjuflokkur rétt áður sú stefna rann sitt skeið í alþjóðlega hruninu 2008. Þá varð Samfylking eindreginn talsmaður alþjóðahyggju, sbr. Evrópustefnuna, í þann mund sem alþjóðavæðingin steytti á skeri.
Íslenskur kratismi er krónískt á röngunni. Alþýðuflokkurinn var flokksheimili þeirra sem lögðust gegn stofnun lýðveldis 1944. Krötum fannst hyggilegra að vera áfram dönsk hjálenda en að standa á eigin fótum.
Slæmir einstaklingar eru ekki ástæða vonds samfélags heldur ónýtar hugmyndir. Kratar eru sérstaklega ginnkeyptir fyrir ónýtum hugmyndum.
Athugasemdir
"...lögðust gegn stofnun lýðveldis 1944. Krötum fannst hyggilegra að vera áfram dönsk hjálenda en að standa á eigin fótum."
Þessi rangfærsla ætlar að verða lífseig, væntanlega til þess að með því að endurtaka þetta nógu oft fari allir að trúa henni.
Skoðum staðreyndirnar. Hópur manna, sem þarna er átt við, voru kallaðir lögskilnaðarmenn. Varla hefðu þeir verið kallaðir skilnaðarmenn, sem kenndu sig við lög, ef þeir hefðu ekki viljað skilnað við Dani, enda voru allir sammála um það allt frá hernámi Danmerkur 9. apríl 1940 að nýta sér uppsagnarákvæði Sambandslagasáttmálans.
En þessi hópur, "lögskilnaðarmenn," taldi að formlega væri rétt að tilkynna Dönum um ákvörðun Íslendinga um að segja upp Sambandssamingnum, þegar Danir yrðu lausir undan hernámi Þjóðverja, og strax í kjölfar þess yrði stofnað lýðveldi.
Ef þessi leið hefði verið farin hefði lýðveldið verið stofnað 1945 eða í síðasta lagi 17. júní 1946.
Allir flokkar voru sammála um og með í för um það að segja Sambandslagasamningnum upp um leið og færi gæfist, þegar 25 ár væru liðin frá gerð hans, en það gerðist í árslok 1943 og í kjölfarið að stofna lýðveldi.
Allir flokkar voru sammála um stofnun embættis ríkisstjóra til að fara með konungsvaldið til bráðabirgða sumarið 1941, þegar Danir voru ófærir um það vegna þess að þeir voru hernumin þjóð.
Allir flokkar voru skilnaðarmenn, en skiptust í hraðskilnaðarmenn og lögskilnaðarmenn, þar sem hraðamismunurinn var aðeins eitt ár.
Að halda sífellt öðru fram en ofangreindu er furðulega lífseig árátta.
Allt fram undir 1970 var 1. desember mikill hátíðisdagur á þeim forsendum, að í Sambandslagasamningnum 1918 fólst að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki með tryggingu fyrir því að Íslendingar gætu stofnað lýðveldi eftir 25 ár.
"Fullveldisdagurinn" var ekki haldinn hátíðlegur til þess að fagna því að Ísland væri "dönsk hjálenda."
Ómar Ragnarsson, 29.8.2016 kl. 12:09
Þetta er greinargott og réttmætt innlegg frá þér, Ómar Ragnarsson.
Jón Valur Jensson, 29.8.2016 kl. 15:37
,,Hannibal Valdimarsson, síðar alþingismaður og forseti ASÍ, var einn þeirra sem vildu fresta skilnaði, en sú skoðun átti raunar mest fylgi innan Alþýðuflokksins."
Ofanritað er fengið af sérvef RÚV, sjá hlekk að neðan. Alþýðuflokkurinn var heimili þeirra sem síst vildu segja upp sambandinu við Dani. Þetta er einfaldlega ein af staðreyndum Íslandssögunnar.
http://servefir.ruv.is/1944/s1bok1.htm
Páll Vilhjálmsson, 29.8.2016 kl. 18:35
Þetta átti sér langmest fylgi meðal Alþýuflokksmanna á Ísafirði og í Ísafjarðarsýslum, það sést á kosningatölunum serm birtar eru í bókinni Lýðveldishátíðin og einnig í Kosningaskýrslum Hagstofunnar, og þetta eru náttúrlega alkunnar staðreyndir, og ég bendi Páli á hina góðu bók snillingsins Hannibals, Bannfærð sjónarmið, sem fjallar einmitt um þessi mál og hann gaf út mörgum áratugum seinna, yfirvegaður, einnig með mörgum samtímagreinum hans í hans vestfirzka blaði og víðar. Og bannfærð voru þau sjónarmið af ýmsum og reynt að bolast í þessu máli, svo að minnir á pólitískan réttrúnað nútímans; sjá bókina!
Jón Valur Jensson, 29.8.2016 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.