Þjóðhátíð er menningarhátíð

Fyrsta þjóðhátíðin var haldin í Vestmannaeyjum 1874. Eyjamenn komust ekki í land að fagna þúsund ára byggð í landinu og efndu til hátíðar í eyjunni sem nefnd er eftir þrælum Hjörleifs landnámsmanns. Bæjarhátíð Eyjamanna ber þetta nafn æ síðan, þjóðhátíð, og er líklega elsta veraldlega hátíðarhefðin okkar eftir að kóngsbænadegi lauk.

Þjóðhátíð er menning í anda og framkvæmd. Sjálfboðaliðar bera uppi undirbúninginn og þorri íbúanna tekur þátt. Eyjatjöldin eru sett upp á miðvikudegi og fimmtudegi í samvinnu enda standa þau þétt hlið við hlið og mynda götur með nöfnum eins og Týsgata og Ástarbraut. Í aðdraganda hátíðar streyma bílar inn í Herjólfsdal með búslóðir í tjöldin, s.s. sófasett, eldhúsinnréttingar og viðargólf. Verkfæri eru lánuð og handlagnir redda málum þegar þarf á að halda.

Inn í tjöldin bera heimamenn fram kræsingar á setningardegi, föstudegi eftir hádegi, þegar Eyjamenn mæta í sínu fínasta pússi en aðkomumenn í útivistarfatnaði. Í blíðviðri eins og í gær var setið utan tjalda þar sem fjölskyldur gerðu sér glaðan dag, hittu brottflutta Eyjamenn og nutu samvista vina af fastalandinu.

Í hátíðarræðu Andrésar Sigurvinsonar sagði frá þeim einkennum Eyjamanna að taka lífinu mátulega alvarlega. Andrés rakti lundernið til tveggja þátta. Vestmannaeyjar eru til langs tíma verstöð og suðupottur manna og kvenna úr öllum landsfjórðungum - auk Færeyinga. Sambýlið við hafið er annar þáttur lífsmyndarinnar. Ekki komu alltaf allir bátar af sjó. Biðin eftir fréttum af ástvinum sem skiluðu sér ekki úr róðri greipti þann skilning í vitundina að lífið er hvergi nærri sjálfsagður hlutur. Fólk tileinkar sér vonina en mætir vonbrigðum með lífsþrótti.

Lífsþróttur Eyjamanna birtist árlega í þjóðhátíð. Og sé grannt skoðað er bæjarhátíðin rétt kennd við þjóðina. Í öllum Íslendingum er eyjamaður.  


mbl.is Þjóðhátíð sett með pomp og prakt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góður!

Halldór Egill Guðnason, 30.7.2016 kl. 18:19

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Góð áminning eftir allt nauðgunartal undanfarinna vikna. Þetta er hátíð heimamanna sem þeir af gestrisni veita svo öðrum aðgang að.

Ragnhildur Kolka, 31.7.2016 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband