Miðvikudagur, 20. júlí 2016
Fjölmiðlanauðgun
Ef einhverjum er nauðgað getur viðkomandi farið með nauðgunina í fjölmiðla sem eru viljugir viðtakendur slíkra frétta, eins og dæmin sanna.
Þolandi nauðgunar getur einnig kært verknaðinn til lögreglu. Þá fer fram opinber rannsókn sem sem ýmist leiðir til ákæru eða frávísunar.
Sá sem verður fyrir nauðgun getur líka gert hvorttveggja, sagt frá ofbeldinu í fjölmiðlum og kært árásina.
Í stuttu máli: fórnarlambi nauðgunar eru allir vegir færir að gera glæpinn að opinberu máli.
Samt láta fjölmiðlar og sumt fjölmiðlafólk eins og lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum stjórni opinberri umræðu um nauðgun.
Einfaldlega nóg boðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hef aldrei getað skilið hvaða almannahagsmunir felast í því að fjölmiðlar smjatti á nauðgunarmálum. Slíkar fréttir gera ekkert annað en æra óstöðuga sem fara á flug, samanber fréttina af nauðgunaríbúðinni í Hlíðunum. Vonandi fá þeir sem þar lentu í fjölmiðlahakkavélinni bætur svo um munar.
Ragnhildur Kolka, 20.7.2016 kl. 15:52
Eru semsagt frásagnir þolenda meintra afbrota orðnar jafngildar upplýsingum um opinberar rannsóknir lögreglu á þeim eða samskonar afbrotum?
Þá hefur röksköpunargáfan náð nýjum hægðum hér á þessari síðu.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2016 kl. 16:47
Opinber rannsókn í nauðgunarmálum tekur vikur og mánuði, Guðmundur. Umræðan um nauðgunarákærur í Vestmannaeyjum snýst um hvort upplýst skuli um ákæru nokkrum klukkutímum eftir að ákæra er lögð fram eða nokkrum dögum. Maður þarf að láta rök lönd og leið til að finna nokkurn mun þar á.
Páll Vilhjálmsson, 20.7.2016 kl. 20:00
Almennar upplýsingar um að ákveðinn fjöldi mála í tilteknum málaflokki hafi borist til lögreglu á ákveðnu tímabili (svo sem einni helgi) eru ekki persónugreinanlegar til þolanda hugsanlegs afbrots. Það er helsti munurinn á slíkum almennum upplýsingum og frásögn brotaþolans sjálfs.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2016 kl. 23:05
Ég leyfi mér nú bara að birta í heilu lagi grein Andríkis um þetta mál. Held að hún segi allt sem segja þarf:
"Fjölmiðlamenn geta verið ótrúlega sjálfhverfir. Nú eru einhverjir þeirra að fara á taugum vegna þess að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum ætlar ekki að láta þá fá rauntímaupplýsingar um kærð kynferðisbrot.
Það er eins og þessir fjölmiðlamenn haldi að hér séu á ferð einhver kosningaúrslit. Það séu að koma tölur. Þeir verði að fá þær strax. Annað sé „þöggun“.
Einstaklingur telur að brotið hafi verið á sér og ákveður að leita aðstoðar lögreglunnar. Skyndilega finnst einhverjum blaðamönnum að þeir séu orðnir aðilar að málinu og eigi rétt á tafarlausum upplýsingum. Þeir geti alls ekki beðið fram yfir helgi. Þeir verði að fá nýjustu tölur.
Menn ættu að hugsa um fórnarlambið í málinu. Það situr kannski á neyðarmóttökunni, varla byrjað að jafna sig á miklu áfalli, hugsanlega mesta áfalli ævinnar fram að því. Hverjum er gerður greiði með því að á sama tíma sé sagt frá því í fréttum að búið sé að kæra kynferðisbrot á útihátíðinni þar sem fórnarlambið var að skemmta sér? Fórnarlambið hugsar auðvitað með sér að það fyrsta sem fólk þar geri, þegar slík frétt berst, sé að velta fyrir sér hvern vanti í hópinn. Fór einhver héðan í fylgd starfsmanna? Hvar er Jói, hefur einhver séð Jóa? Getur verið að það sé Jói sem var ráðist á?
Þegar frétt er svo sögð í útvarpi að nítján ára drengur eða tvítug stúlka hafi orðið fyrir ofbeldi á útihátíðinni í Mikladal, kemur upp skelfing hjá þeim sem eiga börn á hátíðinni. Eðlilega vilja allir ganga úr skugga um að sitt barn sé óhult. Allir reyna að hringja. Margir ná ekki sambandi. Hvaða hagsmunum er þjónað þegar sagðar eru fréttir sem valda ótta hjá hunduðum eða þúsundum foreldra?
Hvað er það eiginlega sem kallar á að fjölmiðlamenn fái rauntímaupplýsingar um fjölda kærða mála af einni tegund? Hvers vegna má ekki bíða fram yfir helgi eftir þeim tölum? Hvaða hagsmuni hefur „almenningur“ af því að fá tölurnar samdægurs?
Hvernig dettur mönnum í hug að kalla það „þöggun“ ef tölurnar eru ekki sendar út samdægurs?"
Þorsteinn Siglaugsson, 20.7.2016 kl. 23:11
Lögreglan veitir almennar upplýsingar um afbrot og kærur. Umræðan snýst um hvenær upplýsingar um tilteknar kærur, þ.e. kærur vegna nauðgunar, eru kynntar. Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum vill ekki birta upplýsingar þegar málsmeðferð er á frumstigi og rökstyður það m.a. með hagsmunum brotaþola og rannsóknahagsmuni.
Ef brotaþoli telur það þjóna hagsmunum sínum getur hann sjálfur stigið fram og tilkynnt opinberlega að hann hafi lagt fram kæru. Ekkert bannar honum það.
Það nær ekki nokkurri átt að saka lögreglustjórann í Vestmannaeyjum um þöggunartilburði. Engri þöggun er til að dreifa.
Páll Vilhjálmsson, 20.7.2016 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.