Fimmtudagur, 7. júlí 2016
Brexit/Trump er nei við ójöfnuði alþjóðavæðingar
Tveir kunnir hagfræðingar, Nouriel Roubini og Joseph E. Stiglitz, komast að sömu niðurstöðu um alþjóðavæðingu síðustu áratuga: hún leiðir til aukins ójafnaðar í vestrænum ríkjum.
Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, er tilefni greina þeirra Roubin og Stiglitz. Greining þeirra á Brexit er í stuttu máli þessi: breskur almenningur óttaðist að fleiri flóttamenn frá Norður-Afríku og miðausturlöndum, sem Breta verða að taka við vegna ESB-aðildar, munu enn frekar grafa undan lífsgæðum breskra launþega.
Alþjóðavæðingin, með frjálsum flutningi fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls, á samkvæmt kenningunni að skila öllum betri lífskjörum. Aukinn hagvöxtur átti að stækka þjóðarkökuna og allir myndu njóta góðs af. Raunveruleikinn er annar en kenningin. Á síðustu áratugum standa millitekjur í stað og þeir sem standa í neðri þrepum launastigans hafa mátt búa við fallandi tekjur.
Brexit er mótmæli við ójöfnuði alþjóðavæðingar. Velgengni Donald Trump í bandarískum stjórnmálum er af sömu rót. Sama ástæða er fyrir sterkum framgangi jaðarafla á vinstri- og hægri kanti evrópskra stjórnmála.
Brexit, Trump og evrópskir andófsflokkar eru áþreifanleg merki um að alþjóðavæðing síðustu áratuga rennur sitt skeið. Pólitísk óreiða og aukin spenna, bæði innan ríkja og milli þeirra, verður einkenni alþjóðastjórnmála næstu ári.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.