Mánudagur, 27. júní 2016
ESB berst fyrir lífi sínu: minna lýðræði, meiri miðstýring
Fjárfestirinn George Soros segir óhjákvæmilegt að Evrópusambandið liðist í sundur eftir Brexit. Guardian tekur saman háværar kröfur um þjóðaratkvæði í ESB-ríkjum eins og Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi og Þýskalandi þar sem aðild að sambandinu væri í húfi.
Gagnsókn Evrópusambandsins felst í meiri og víðtækari samruna. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, er sagður vilja nota Brexit-kreppuna til að þétta raðirnar með kröfu um að allar ESB-þjóðir taki upp evru og samþykki fullveldisframsal sem tryggi framtíð gjaldmiðilsins.
Aðeins 19 af 27 ríkjum Evrópusambandsins nota evru. Ef reynt verður að knýja á um aukinn samruna á forsendum evru-samstarfsins eykst andstaðan við ESB-aðild í þeim ríkjum sem búa við sjálfstæðan gjaldmiðil. Þá er heldur ekki stuðningur við aukinn samruna í þeim ríkjum sem þegar nota sameiginlega gjaldmiðil, t.d. Frakklandi, Hollandi og Austurríki.
Frakkar og Þjóðverjar eru sagðir tilbúnir með áætlun um að blása lífi í dauðvona Evrópusamband. Þá áætlun verður að laga að pólitískum veruleika, ef hún á að eiga minnstu von um að heppnast. Pólitíski veruleikinn er sá að elsta lýðræðisríki ESB hafnaði sambandinu. Ef svarið frá Brussel verður minna lýðræði, meiri miðstýring er áætlunin steindauð.
Liggur ekki á að ganga úr ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.