Feðraveldi, trúfrelsi og langtímaófriður

Í múslímskum arabaríkjum var stöðugt stjórnarfar, víðast hvar, á síðasta þriðjungi síðustu aldar. Stjórnarfarið byggði á feðraveldi sem sótti m.a. rök til kóransins, trúarrits múslíma. Feðraveldið útskýrir stöðugleika stjórnarfars í Sögu arabaþjóða eftir bresk-líbanska sagnfræðinginn Albert Hourani.

Valdstjórn feðranna var nátengd stöðu þeirra í samfélaginu þar karlmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar og konur annars flokks þegnar. Arabaþjóðir stofnuðu ríki sín á grunni valdaætta. Eitt þeirra, Sádí-Arabía, heitir eftir Sádí-fjölskyldunni sem stofnaði konungsríkið árið 1932. Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar tóku einræðisherrar völdin í sumum ríkjum, t.d. Líbíu, Sýrlandi og Írak. Valdagrunnur þeirra var ættin með sína trúarsannfæringu. Byggt var á forsendum feðraveldis þar sem karlinn útdeildi gæðum en fékk í staðin hollustu.

Innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 steypti af stóli feðraveldi Saddam Hussein og sona hans. Bandaríkjamenn ætluðu sér að smíða lýðræðisríki í Írak. Feðraveldið hafnaði leiðsögn Bandaríkjanna um hvernig ætti að setja saman þjóðríki. Bandaríkin settu saman neyðaráætlun í staðinn, sem fól í sér uppgjöf á hugmyndinni um lýðræði - skilmerkilega lýst í bók Thomas E. Ricks, Veðmálið.

Afleiðingar innrásar Bandaríkjanna í Írak voru að feðraveldi í öðrum arabaríkjum riðuðu til falls, t.d. í Líbíu og Sýrlandi. Arabíska vorið, eins og það var kallað, var lýðræðishreyfing sem breiddi úr sér í miðausturlöndum og Norður-Afríku. Aðeins í einu ríki, Túnis, leysti arabíska vorið ekki úr læðingi langvinn átök milli stríðandi fylkinga, ef ekki hreinræktuð borgarastríð.

Malise Ruthven gerir því skóna í grein í New York Review of Books að uppgangur Ríkis íslam í arabaríkjum sé afleiðing af hruni feðraveldisins. Þegar valdstjórn missir tökin á samfélaginu myndast rými fyrir hreyfingar sem sem biðla til eilífra sanninda sem eingöngu fæst í trú. Feðraveldið hélt aftur af trúaröfgum og Baath-flokkar Hussein í Írak og Assad í Sýrlandi eru fremur veraldlegir á múslímskan mælikvarða.

Múslímar skiptast í tvær meginfylkingar, súnna og shíta. Verkefnið sem múslímar standa frammi fyrir er tvíþætt. Í fyrsta lagi að sættast á trúfrelsi, í það minnsta umburðarlyndi í trúmálum. Í öðru lagi að finna aðra tegund valdstjórnar en feðraveldi. Allar líkur eru að það muni taka kynslóðir að leiða fram lífvænlegar lausnir á þessum tvíþætta vanda. Á meðan munu þúsundir araba flýja heimkynni sín í leit að betra lífi á vesturlöndum.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég er nú að gera mér vonir um að ekki líði margir tugir ára þar til þreyttir jarðarbúar eigi þess kost að verða landnemar á nýjum hnöttum. Þá verði búið að finna upp tækni sem les gangverk viðkomandi,enginn fer sem ekki hefur það sem krafist er. Já reglurnar: Trú von og kærleikur.

Helga Kristjánsdóttir, 9.6.2016 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband