Fimmtudagur, 9. júní 2016
Hanna Birna og sagnaheimur ósanninda
Hanna Birna Kristjánsdóttir hrökklaðist frá stjórnmálum að ósekju. Lekamálið, sem felldi hana, var DV-fjöður sem með aðstoð annarra fjölmiðla, stjórnarandstöðu á alþingi og embættismanna varð að hænsnakofa.
Dómurinn sem gekk í lekamálinu segir skýrt og ákveðið að Hanna Birna reyndi ekki að afla sér ávinnings af lekamálinu. Ekki var hlustað á dómsniðurstöðuna heldur réð sagnaheimur ósanninda ferðinni.
Hanna Birna talar um reynslu sína í viðtali:
Og það var kannski lærdómurinn minn af lekamálinu, að það var alveg sama hversu oft ég sagði sannleikann, hversu mikið ég reyndi að útskýra, það voru allir búnir að ákveða einhvern annan sannleika sem ég kannaðist aldrei við.
Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari sló í gegn með þeirri kenningu að maðurinn, en ekki aðrar dýrategundir, sigraði heiminn í krafti sagnakunnáttu. Maðurinn er eina tegundin sem býr til sagnaheim. Við lifum og hrærumst í sagnaheimi sem er raunverulegri en veruleikinn sjálfur, einkum og sérstaklega í stjórnmálum.
Pólitískur sagnaheimur okkar var til skamms tíma mótaður af fáeinum fjölmiðlum, umræðu á alþingi og skrafi á vinnustöðum og heimilum. Veldisvöxtur varð í þessum sagnaheimi um og upp úr síðustu aldamótum með nýmiðlun; bloggi, netfjölmiðlum og samfélagsmiðlum.
Eitt einkenni sagnaheims nýmiðlunar er að ósannindi, ýkjur og undirróður eiga greiðari leið í umræðuna. Í gömlu fjömiðlunum voru mestu ósannindin flokkuð frá því efni sem birtist opinberlega. Ritstjórar og fréttastjórar voru hliðarverðir fjölmiðla og sinntu gæðaeftirliti. Eflaust var ýmislegt kæft í fæðingu sem vel átti heima í opinberri umræðu. En gæðaeftirlitið kom í veg fyrir að hægt væri að búa til frásagnir sem áttu litla sem enga málefnalega stoð.
Í heimi nýmiðlunar er ekkert eftirlit með rökum og málefnalegum undirstöðum þeirra frásagna sem settar eru á flot. Við hrunið skaddaðist tiltrú almennings á stjórnmál almennt og stjórnvöld sérstaklega. Almenningur var tilbúinn að hlusta á meiri ýkjur og ósannindi en áður. Eftir því sem fleiri tóku undir ósannindin urðu þau trúverðugri.
Hanna Birna var ekki, frekar en aðrir stjórnmálamenn, hafin yfir gagnrýni. En lekamálið var ekki gagnrýni heldur tilbúinn sagnaheimur ósanninda.
Athugasemdir
Mikið rétt hjá þér Páll. Ýkjur og ósannindi hafa tekið yfir umræðuna á alltof mörgum miðlum. Verst er þó að ríkismiðillinn skuli vera þátttakandi í óhróðrinum.
Ragnhildur Kolka, 9.6.2016 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.