Ögmundur og félagslega frjálshyggjan sem aldrei varð

Ögmundur Jónasson sagði í fréttum RÚV í kvöld að frjálshyggja sækti í sig veðrið síðustu ár og yrði að mæta með uppbyggilegri pólitík. Þegar Ögmundur tók sæti á alþingi fyrir Alþýðubandalagið og óháða árið 1995 sagði hann að allt púður væri úr frjálshyggjunni. Þeir sem aðhylltust frjálshyggju nenntu varla í umræðuna.

Bloggari man þetta viðhorf Ögmundar vegna þess að hann var blaðamaður Vikublaðsins á þessum tíma. Alþýðubandalagið gaf blaðið út enda ætlaði þáverandi formaður, Ólafur Ragnar Grímsson, að taka hugmyndafræðilega umræðu. Ólafur Ragnar hvarf til Bessastaða árið eftir að Ögmundur kom á þing. Þeir tóku við sem stokkuðu upp vinstriflokkana um aldamótin, þegar Samfylking og Vinstri grænir tóku við af Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Flokkarnir fengu ný nöfn en innihald þeirra breyttist lítið.

Það sjónarmið Ögmundar að frjálshyggjan væri dauð úr öllum æðum fyrir aldamót var rétt á yfirborðinu. Frjálshyggja Thatcher og Reagan var komin á endimörk í umræðunni en hún var sigurvegari á jörðu niðri. Harðir andstæðingar frjálshyggjunnar, menn eins og Ögmundur, tóku á hinn bóginn ekki með í reikninginn að frjálshyggja, í merkingunni markaðsbúskapur, átti sér enga hugmyndafræðilega andstæðinga sem gátu vísað til valkosta við markaðsbúskap.

Vinstristjórnin á Íslandi, 2009 til 2013, sem Ögmundur sat í, bauð ekki upp á neina valkosti við markaðsbúskap. Og ekki var tækjum ríkisvaldsins beitt í þágu heimilanna. Hægristjórn sem tók við gerði t.a.m. mun meira fyrir heimilin í landinu og en vinstriflokkarnir.

Vandi vinstrimanna er að pólitík þeirra byggir öll í andstöðunni. Vinstriflokkarnir þrífast á mótmælum. Þegar þeir fá sögulegt tækifæri að láta til sín taka, líkt og þeir fengu 2009-2013, standa þeir á gati - hafa ekkert að bjóða nema ófrið og læti. Þannig starfaði ríkisstjórn Jóhönnu Sig. Flokkarnir sem að stjórninni máluðu sig út í horn og standa þar enn. Litlar líkur er að Samfylking og Vinstri grænir rétti úr kútnum fyrir næstu kosningar.

Félagsleg frjálshyggja, sem bæði miðvinstri- og miðhægriflokkar í Evrópu leggja stund á, er algerlega vanþróuð hér á landi. Eyðimerkurganga vinstrimanna heldur áfram um fyrirsjáanlega framtíð. 


mbl.is Ögmundur hyggst kveðja þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband