Eftir frjálshyggju kom klíkukapítalismi. Hvað næst?

Þverpólitíska greiningin á íslenska hruninu 2008 er þessi: í nafni frjálshyggju yfirtóku einkaaðilar samfélagslegar eigur (banka, fjarskipti, ofl.). Einkaaðilar mynduðu klíkur sem gerðu Ísland nær gjaldþrota.

Klíkukapítalisminn varð gjaldþrota 2008 og nokkrir leiðandi menn fengu fangelsisdóma,  sumir bíða enn á sakamannabekk. Efnahagshugsunin, sem leiddi til klíkukapíalismans, breyttist ekki. Vinstristjórnin 2009-2014 ríkisvæddi ekki góssið heldur slakaði því út til einkaðila og lífeyrissjóða (sem á vissan hátt er samfélagsvæðing). Eftir uppgjör þrotabúa bankanna eignaðist ríkið enn meira af eignum og þær verða seldar einkaaðilum/lífeyrissjóðum, alveg saman hvort í landinu situr vinstri- eða hægristjórn.

Það er einfaldlega enginn valkostur við efnahagsstefnu sem byggir á einhvers konar frjálshyggju. Vörn gegn frjálshyggjuvæðingu tekst mögulega á afmörkuðum sviðum, s.s. að koma í veg fyrir að áfengi verði selt í dagvöruverslunum. En frjálshyggja er enn ráðandi í efnahagshugsun.

Vandinn er ekki séríslenskur. Efnahagshrunið 2008 afhjúpaði vankanta frjálshyggjunnar á heimsvísu, eins og George Monbiot skrifar. Og vegna þess að vestræn hagspeki hvílir á forsendum frjálshyggjunnar, um yfirburði markaðsfyrirkomulagsins, olli hrunið víðtækri pólitískri kreppu. Jeremy Warner rekur skilmerkilega lögmætiskreppu frjálshyggjunnar og áhrif hennar á stjórnmálakerfi vesturlanda.

Í þessu samhengi verða mótmælin á Austurvelli, uppgangur Donald Trump og Bernie Sanders í Bandaríkjunum og sterkari staða mótmælaflokka í Þýskalandi og Frakklandi, hluti af sömu þróun. Kjósendur eru afhuga pólitíska kerfinu og eru tilbúnir að hlusta á pólitík sem áður var á jaðrinum, hvort heldur til vinstri eða hægri.

Hagspeki frjálshyggjunnnar, segir Joseph Stiglitz, gerir seðlabanka heims ófæra um að glíma við afleiðingar kreppunnar frá 2008. Alþjóðlegt umrót verður næstu árin, ef ekki áratugi, á meðan ný viðmið um hagsstjórn vaxa fram. Frjálshyggjan, í þeirri mynd sem hún blasir við síðustu áratugi, mun taka breytingum. Ef hún á annað borð lifir af.

Ísland er að sumu leyti vel í stakk búið að sitja af sér storminn sem fylgir veðrun frjálshyggjunnar. Við búum við fullveldi og sjálfstæðan gjaldmiðil og getum aðlagað efnahagsleg stærðir að samfélagslegum þörfum.

Eitt ætti þó öllum að vera ljóst. Við endurreisum ekki Ísland á grunni frjálshyggjunnar sem leiddi til klíkukapítalisma. Önnur pólitík og aðrar áherslur en frjálshyggjunnar verða að koma í stað hugmyndafræðinnar sem leiddi okkur í hrunið 2008.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Og þessi önnur pólitík er?

Wilhelm Emilsson, 16.4.2016 kl. 10:35

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Fylgstu með.

Páll Vilhjálmsson, 16.4.2016 kl. 13:19

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Ég bíð spenntur! En ég var að vona að þú myndir spá, eða leggja til nýjar hugmyndir. Sjáum hvað setur. Mig grunar að þú viljir meiri forræðishyggju, en það eru bara getgátur, auðvitað.

Wilhelm Emilsson, 16.4.2016 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband