Trump og sirríar-marxismi: peningana heim í bóluna

Sjónvarpskonan góðlega Sirrí Arnardóttir skrifaði fésbókarfærslu sem Kvennablaðið gerir að frétt. Fyrirsögnin er Peningana heim og lykilsetningin er:

Peningar í skattaskjólum hafa ekki orðið til í tómarúmi óháð vinnu almennings, óháð auðlindum þjóðarinnar. Þetta eru peningar sem þjóðfélagið í heild sinni hefur átt þátt í að skapa. Og við þurfum þessa peninga heim í okkar banka, sjóði og samfélag.

Sirríar-marxismi er einföldun sem stendur á flugufæti. Peningar verða ekki til óháð vinnu, en þeir verða líka til með væntingum. Stundum er of mikið af peningum - þeir verða til vandræða og mynda bólur. Lífeyrissjóðir eiga ráðandi hlut í flestum stærstu fyrirtækjum landsins, en þeir eru einmitt afrakstur ,,vinnu almennings". Lífeyrissjóðir biðja aftur á móti um leyfi stjórnvalda að flytja peninga úr landi - til að draga úr bólumyndun í hagkerfinu. Samkvæmt sirríar-marxisma ætti peningur vinnandi fólks, þ.e. eigur lífeyrissjóðanna, að vera kjurrar hér á landi.

Fasteignaverð á Íslandi hækkar um tugi prósenta á nokkrum misserum. Á liðnu ári hækkaði hlutabréfamarkaðurinn hér um 35 prósent eða þar um bil. Hér er einfaldlega til of mikið af peningum. Engin ,,vinna almennings" stuðlaði að þessari verðmætaaukningu, heldur væntingar, öðru nafni spákaupmennska.

Donald Trump kann kannski ekki mannasiði en eitthvað kann hann fyrir sér í braski með hlutabréf og fasteignir. Trump segir bóluna í Bandaríkjunum brátt springa með tilheyrandi afskriftum peninga á mörkuðum. Háttvísari og greindari menn en Trump telja raunar peningahagkerfið eins og við þekkjum það í dag gengið sér til húðar.

Anatole Kaletsky segir kreppuna 2008 og viðbrögð við henni sýna kreppu sem ekki verði leyst nema með uppstokkun á hagkerfum með nýjum efnahagslegum grunnforsendum.

Sirríar-marxismi hjálpar lítið þegar kemur að hörðum efnahagslegum veruleika. En sirriar-marxismi er gott fóður fyrir kaffihúsaumræðuna á Íslandi. Þess vegna varð fésbókarfærslan að fréttagrein í fjölmiðli.

 

 

 


mbl.is Trump: Við sitjum á efnahagsbólu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband