Þrjú ónýt ríki og þriðja heimsstyrjöldin

Fáeinir kílómetrar eru á milli hernaðaraðgerða Rússa annars vegar og hins vegar Nató-ríkisins Tyrklands í Sýrlandi. Töluverðar líkur eru á að Rússar og Tyrkir skiptist á skotum í Sýrlandsstríðin. Rússum er í mun að gjalda Tyrkjum rauðan belg fyrir gráan eftir að tyrkneskt flugskeyti grandaði rússneskri sprengjuflugvél.

Þýska tímaritið Spiegel segir styrk Rússa í réttu hlutfalli við veiklyndi vesturlanda. Forysturíki vesturlanda veit ekki í hvort fótinn það á að stíga: í Sýrlandi styðja Bandaríkin aðila sem berjast innbyrðis; Kúrda og uppreisnarmenn gegn Assad forseta.

Eins og til að undirstrika mótsagnakennda afstöðu vesturlanda hæðist einn þekkasti dálkahöfundur Spiegel að þeim sem kenna Pútín Rússlandsforsta um klúður vestrænna ríkja í nýskipan heimsins.

Þriðja heimsstyrjöldin hófst með innrás Bandaríkjanna í Írak 2003. Bandaríkin vildu valdaskipti í Írak, afsetja Saddam Hussein, en í staðinn bjuggu þau til ónýtt ríki. Írak er andarslitrunum og verður aldrei starfhæft ríki á ný. Alveg eins og Sýrland mun Írak liðast í sundur.

Þriðja ónýta ríkið er í Evrópu. Úkraína er geysistórt og telur ríflega 40 milljónir íbúa. Landið skagar inn í Rússland og er hugsað sem stökkpallur Nató inn í fyrrum móðurland heimskommúnismans. Spillingin í Úkraínu gerir ríkið óstarfhæft og eftir því ófært um annað en að vera vettvangur stríðsleikja og græðgi.

Heimsstyrjöldin, sem við köllum þá fyrri en ætti að heita sú fyrsta, varð vegna nýlendukapphlaups Evrópuríkja annars vegar og hins vegar þjóðernishyggju. Heimsstríð tvö var háð þar sem illa tókst að setja saman nýskipan heimsmála eftir fyrsta heimsstríð. Þriðja heimsstyrjöldin, sem er þegar hafin, er fæðingarhríðir nýskipan heimsmála í kjölfar endaloka Sovétríkjanna, sem einmitt urðu til í fyrsta heimsstríði.

Líkur eru á að þriðja heimsstyrjöldin verði að stærstum hluta háð utan Evrópu, ef hryðjuverk eru frátalin. Ríkin í kringum Úkraínu er flest heilleg og ekki líkleg að bjóða heim átökum líkt og auðmannaklíkurnar sem rífast um yfirráðin í Kænugarði.

Miðausturlönd eru í upplausn enda mæta þar miðaldir nútíma og trúarofstæki veraldarhyggju. Til að bæta gráu ofan á svart er ríkidæmi þessa heimshluta, olían, stöðugt minna virði. Þriðja heimsstyrjöldin í miðausturlöndum verður langvinn enda þarf að hreyfa við landamærum og það er tímafrekt. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Eina athugasemdin frá mér er sú að þú snýrð við þekktu íslensku orðtæki:  Sagt er að gjalda einhverjum gráan belg fyrir rauðan, en ekki öfugt.

Annars ágæt grein og lesningarinnar virði.

Þórhallur Pálsson, 22.2.2016 kl. 00:03

2 identicon

Vel skrifað

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 01:50

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Þórhallur, Páll snýr oft hlutunum á haus, eins og í þessari grein, til dæmis, en þegar kemur að orðatiltækjum er hann nokkuð traustur. Talað er um að gjalda rauðan belg fyrir gráan. 

Wilhelm Emilsson, 22.2.2016 kl. 05:20

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

„Skiptið ekki orðum við Hrapp, en gjaldið honum rauðan belg fyrir gráan.“ Orð Skarphéðins Njálssonar um Víga-Hrapp. (91. kafli).

Benedikt Halldórsson, 22.2.2016 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband