ESB hrynur - frjálslynt lýðræði sekkur

Hótanir eru sagðar upphátt í samskiptum ESB-ríkjanna en áður voru þær hvíslaðar á lokuðum fundum. Innanríkisráðherra Þýskalands hótar Grikkjum útilokun frá Schengen vegna þess að múslímskir flóttamenn streyma óhindrað inn í Mið-Evrópu frá Grikklandi.

Evrópusambandið hótar Pólverjum rannsókn og refsingu vegna fjölmiðlalaga pólsku ríkisstjórnarinnar er þrengja að tjáningarfrelsinu. Í Póllandi og Ungverjalandi, sem einnig er ESB-ríki, eru ríkisstjórnir sem líta á frjálslynt lýðræði ESB sem löst fremur en kost. Hugtakið ,,andfrjálslynt lýðræði", er orðið viðurkennt í pólitískri umræðu, jafnvel þótt það sé næsti bær við andlýðræði. Flokkum með andfrjálslynt lýðræði á stefnuskrá sinni fjölgar í Evrópu og þeim vex fylgi.

Ástæðan fyrir vexti andfrjálslynds lýðræðis er að háborg frjálslynda lýðræðísins, Evrópusambandið, er að hruni komið. Roger Bootle útskýrir í Telegraph samhengi evru-kreppunnar við flóttamanna-kreppuna. Í báðum tilvikum ætar ESB sér um of og ræður ekki við verkefnið. Evrópusambandið sogar til sín valdheimildir frá aðildarríkjum en er of veikt til að stýra viðfangsefnunum.

,,Europa zerfällt," Evrópa hrynur, segir aðalútgefandi Frankfurter Allgemeine Zeitung, FAZ, og bætir við: í húfi er friður, frelsi og velmegun. Útgefandinn hvetur Þjóðverja til að setja saman c-áætlun, þar sem Kjarna-Evrópa kæmi í stað ESB. Kjarna-Evrópa væri Þýskaland, Bnelúx-löndin, Austurríki en líklega ekki Frakkland og varla Ítalía. FAZ túlkar sjónarmið góðborgaranna í Þýskalandi. Þeir eru að missa þolinmæðina gagnvart Evrópusambandinu.

Donald Trump, sá stjórnmálamaður í Bandaríkjunum sem mest er talað um, er andfrjálslyndur í stíl við leiðtoga í Pólland, Ungverjalandi og Rússlandi. Nærtækt er að álykta að tímabil frjálslynds lýðræðis, sem má segja hefjist eftir seinna stríð, sé að renna sitt skeið.

Alþjóðastjórnmál standa frammi fyrir leiðréttingu ef ekki uppstokkun. Áhugaverðir tímar eru framundan.

  

 


mbl.is „Getum tekið við fleiri með betri samvinnu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband