Eftir guð er maðurinn tilviljun

,,Af himnum ofan" er forsíðuefni Der Spiegel með undirtitli: ,,Er guð misskilningur? Og maðurinn aðeins tilviljun?"

Guð í vestrænni menningu er persónulegur valkostur hvers og eins. Fólki er frjálst að trúa hverju það vill og æ ákveðnari aðskilnaður er á milli hins veraldlega, sem er opinbert og til umræðu hjá almenningi, annars vegar og hins vegar trúar, sem er einkamál og ekki rædd nema til að ítreka að hún eigi ekkert erindi í opinbera umræðu.

Önnur samfélög, t.d. múslímsk, eru með guð sinn í hávegum og setja trúarsetningar iðulega ofar mannasetningum. Sharía-lög múslíma eru í vestrænum augum barbarismi frá miðöldum.

Okkur hættir til að gleyma að ekki fyrir löngu var guð miðlægur í menningunni. Borgir voru skipulagðar frá dögum Rómverja með ráðhús, þar sem veraldlega valdið sat og tilbeiðsluhús, fyrir þann guð sem átti upp á pallborðið á hverjum tíma. Á miðöldum urðu þessi tilbeiðsluhús kristnar kirkjur. Vestræn eingyðistrú var fremur blóðug lengi framan af, þar sem margar ólíkar skoðanir voru á ,,réttri" trú. Þeir máttu gjalda fyrir með lífi sínu sem voru þar á röngunni.

Trú, eðli málsins samkvæmt, er forskrift að jarðnesku lífi. Þeir sem trúa sækja mikilvægustu rök sín í jarðvistinni til hins yfirnáttúrulega.

Trúarbrögð sem standa okkur nærri, ásatrú og kristni, geyma frásagnir um tilurð heimsins. Trú er samkvæmt því markhyggja, með upphaf og endalok. Trúmaðurinn staðsetur sig í þessari frásögn og er með annað augað á eilífðinni í amstri dagsins.

Án trúar er maðurinn tilviljun. Hann á enga frásögn um upphafið, aðeins vísindalegar tilgátur um hvernig líklegt er að líf hafi kviknað í fyrndinni og það þróast til okkar daga. Án trúar er ekkert markmið. Vísindin eru ekki með neinar skýringar um endalokin.

Meginvandi trúleysis er þó ekki skortur á tilgangi. Hvert og eitt okkar getur fundið sinn tilgang eða sleppt því. Stóri vandinn er sá að ef maðurinn er tilviljun getur hann sem tegund ekki gert tilkall til að vera neitt sérstakur. Tilviljun réttlætir ekki tilvist mannsins. En það er á grunni slíkrar réttlætingar sem við komum okkur upp siðum og lögum sem stýra samfélaginu. Eftir því sem veraldarhyggjunni vex ásmegin verður berari tilviljunin sem tilvist okkar er. Og eftir því erfiðara að réttlæta siði og lög sem samfélagið hvílir á.

Gleðilegt nýtt ár. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta eru allt saman góðar umræður sem að mættu vera í vikulegum sjónvapsþætti í okkar RÚV-miðli tengt trú & heimspeki og því að leysa lífsgátuna svo að einhver andleg þróun geti orðið.=Meira af djúpt hugsuðum umræðum heldur en endalaus fíflalæti og boltaleiki.

Hvaða trú 0g speki hjálpar og hvað leiðir til framfara og hvað ekki?

Jón Þórhallsson, 1.1.2016 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband