Þriðjudagur, 15. desember 2015
Stóra múslímastríðið - fyrsti þáttur, bandalög
Múslímar skiptast í tvær meginútgáfur: súnnítar og shítar. Sádi-Arabar líta á sig sem höfuðpostula súnna en Íran er aðalvígi shíta. Bandalag Sáda við Tyrki og fleiri þjóðir er ekki gegn hryðjuverkum Ríkis íslam, þeir eru líka súnnar, heldur gegn Íran.
Hryðjuverkahóparnir, sem dreifa úr sér í Sýrlandi og Írak, eru aðeins yfirskin hernaðaruppbyggingar fyrir stóra múslímastríðið sem mun setja mark sitt á mið-austurlönd um fyrirsjáanlega framtíð.
Herfræðingurinn Edward Luttwak þakkar það George W. Bush forseta Bandaríkjanna að hrinda úr vör stríði súnna og shíta, sem ,,mun vara í þúsund ár. Algjör snilld." Bush hóf Íraksstríðið árið 2003. Síðan er viðvarandi stríðsástand í heimshlutanum.
Líkt og í 30-ára stríðinu sem lagði Evrópu í rúst á 17. öld, einkum Þýskaland, eru trúarbrögð átakalínur yfirborðsins. Undirliggjandi er áskorun olíuríkjanna að eina náttúrulega auðlind þeirra verður æ verðminni. Loftslagsráðstefnan í París skrifaði dauðadóm jarðefnaeldsneytis.
Arabaríkin sem lifa á olíu verða umbyltingu að bráð. Stríð, eins og dæmin sanna, flýta fyrir umbyltingu. Þrjátíu ára stríðið í Evrópu bjó í haginn fyrir þjóðríkjaskipulagið og iðnbyltinga. Þegar rykið sest á vígvellina í mið-austurlöndum í stóra múslímastríðinu eru við öll dauð sem spáum í úrslitin á öðrum áratug 21stu aldar.
Hernaðarbandalag 34 landa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif val a nýjum ayatolla hefur a þetta hernaðarbrölt. En nú hefur verið tilkynnt að undirbúningur sé hafinn að eftirmanni Khameneis. Eins gæti nýlegt samkomulag Vesturveldanna við Íran sett strik í reikninginn. A hvorn veginn sem það verður.
Ragnhildur Kolka, 15.12.2015 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.