Laugardagur, 5. desember 2015
Vestræn karlmennska og múslímar
Vestrænni karlmennsku stendur ógn af múslímum, sérstaklega ungum múslímskum karlmönnum. Ungir, sígraðir og ágengir múslímskir karlmenn vekja ótta, skrifar Jakob Augstein í Spiegel: þeir kúga sínar eigin konur til að fela kvenleika sinn en hvolfa sér yfir vestrænar konur eins og úlfar.
Ræmur um ofbeldishugarfar múslímskra karla gagnvart konum eru lagðar inn á netið. Kóraninn, helgirit múslíma, er með sérstakan kafla um konur, þar sem forræði karla yfir þeim er rauður þráður. Sjálfur átti spámaðurinn á annan tug kvenna. Þá yngstu eignaðist hann hálf sextugur en hún var níu ára er hjónabandið var staðfest með samræði. Fordæmi spámannsins er vitanlega í fullu gildi.
Íslendingar þekkja úr sögu sinni ,,ástandið" þegar landið fylltist af útlenskum hermönnum í seinna stríði sem margir leituðu eftir kynnum við íslenskar stúlkur. Viðbrögð karlasamfélagsins voru að senda þær stúlkur upp í sveit sem sáust gera sér dælt við dáta.
Vestrænir karlar, einkum í Vestur- og Norður-Evrópu, búa við jafnrétti kynjanna og eru ekki í neinum færum að ,,vernda" vestrænar konur fyrir raunverulegri eða ímyndaðir ógn frá múslímskum körlum. Siðaboð og lög reisa skorður við slíkri ,,vernd." Múslímamenning býr ekki við sama taumhald. Ærumorð eru aðferð múslímskrar karlamenningar að halda kvenpeningnum á mottunni.
Vanmáttur vestrænna karla að verja kvenhelft samfélagsins skilar sér í talsvert meiri ákefð að verja landamærin við innflæði múslíma annars vegar og hins vegar verður gikkfingurinn körlum lausari, samanber loftárásir á Ríki íslams. Opin spurning er hvort það muni nægja.
Philipp Blom skrifaði bók, The Vertigo Years, um menninguna í aðdraganda fyrra stríðs. Kreppa karlmennskunnar er ein breyta sem Blom dvelur nokkuð við. Með fyrirvara um einföldun þá braust fyrra strið út til að evrópskir karlar gætu sýnt sig í krapinu. Langvarandi friður og velmegun kallaði á andsvar úr forneskju. Stærstu stríðstólin fengu nöfn úr germanskri goðafræði; Óðinn, Þór og Loki.
Fyrra strið leysti úr læðingi öfl sem léku lausum hala í aldarþriðjung. Þau voru ekki kveðin í kútinn fyrr en eftir Auschwitz og Hiroshíma.
Menning er aðferð til að skilja heiminn. Breytt menning veit á breyttan skilning. Og breyttur skilningur skilar sér í breyttum ákvörðunum um hvernig málum skuli skipað.
Athugasemdir
"Menning er aðferð ..." Held þú verður að kynna þér betur hugtakið menning og hvernig það er notað. Hugtakið menning er notað til að lýsa, sem er ekki það sama og aðferð.
Rúnar Már Bragason, 5.12.2015 kl. 18:53
Ágætt að vísa í grein Jacobs Augsteins í Spiegel. Því miður gleymdist að nefna að greinin fjallar um fordóma, rógburð og rasisma.
Sæmundur G. Halldórsson , 5.12.2015 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.