Trú, kynlíf og heimspeki

Trúariðkun á það sameiginlegt kynlífi að séu athafnirnar hlutlægt skráðar og þeim lýst kemur iðjan fremur hallærislega fyrir sjónir og lítt áhugaverð. Engu að síður stundar fólk hvorttveggja trú og kynlíf af nokkrum móð og talsverðri innlifun nú um stundir sem löngum áður.

Fastur dálkahöfundur Guardian gerir þennan samanburð í pistli þar sem hann reynir að útskýra tilhöfðun trúarinnar. Trú er eins og kynlíf, fáránlegt en virkar, skrifar Jonathan Freedland, sem sjálfur stundar gyðingdóm án þess að gera mikið með yfirnáttúrulega þáttinn, þetta með guð og spámennina í beinu sambandi við æðri máttarvöld.

Kenning Freedland er að trú auki samheldni og sé félagslegur þáttur sem samfélagið geti illa verið án þrátt fyrir skringilegheit trúarsiða. Svo líkingunni sé haldið til haga; trú er meira en tilbeiðsla, kynlíf meira en kirtlastarfsemi.

Trú er valkvæð í okkar heimshluta. Hverjum og einum er í sjálfsvald sett að tileinka sér hverja þá trú sem vera skal. Rök gegn trú, sem byggja á ófrelsi, eiga ekki lengur við í vestrænni menningu. Annað gildir um mið-austurlönd. 

Gagnrýnni hugsun er oft teflt fram sem valkosti við trúarbrögð. Páll heitinn Skúlason heimspekingur setti fram undir þeim formerkjum eftirfarandi lögmál: það er rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum.

Páll kannaðist við að hnífskörp skynsemin er ein og sér of takmörkuð til að seðja mennskuna. Hann greindi, með aðstoð Charles Sanders Peirce, þrjár leiðir sem við notum samhliða gagnrýnni hugsun að komast að sannindum um heiminn.

Páll nefnir þessar þrjár leiðir þrjóskuleiðina, kennivaldsleiðina og fordómaleiðina og ættu nafngiftirnar að gefa hugboð um hvað er átt við.

Heimspeki og trú geta það sem köld vísindi eru ófær um, orðið ,,þjónustuliður í samskiptum manns og náttúru" eins og Páll Skúlason sagði snemma á ferli sínum. Kynlíf er, samkvæmt skilgreiningu, einnig ,,þjónustuliður" manns og náttúru.


mbl.is Slysið „æðra mannlegri stjórn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mér finnst þessi samanburður á kynlífi og trúarbrögðum vera hálfgerð þvæla. Mögulega vakir það fyrir dálkahöfundi Guardian að vekja athygli á skrifum sínum en það er vel þekkt að kynlíf selur. 

Annað er að setja öll trúarbrögð í sömu skál þ.e. eins og að um sé að ræða eitt og hið sama fyrirbærið, en með mismundandi útfærslum, er að mínu viti ekki rétt. 

Sigurjón Þórðarson, 26.9.2015 kl. 16:13

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég las úr orðum dálkahöfundar Guardian að hvorttveggja kynlíf og trú væru álíka ómerkileg fyrirbæri ef maður skoðaði þau hlutlægt. En samt stundar fólk þetta reglulega - í þeim skilningi ,,virka" bæði trú og kynlíf.

Og þú hlýtur að vera sammála því, Sigurjón, að trúarhvötin sé sammannleg - alveg burtséð frá réttmæti ólíkra trúarbragða.

Páll Vilhjálmsson, 26.9.2015 kl. 18:58

3 Smámynd: Aztec

Eftir þennan samanburð á trúarbrögðum og kynlífi, þá er vert að huga að andstæðunum: Tilgangur kynlífsins frá náttúrunnar hendi er að fjölga og viðhalda mannkyninu, en tilgangur trúarbragðanna er að eyða því smám saman aftur.

Aztec, 26.9.2015 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband