Nató hugsar eins og Marx

Nató er búið að innbyrða nær öll ríki sem áður voru í Varsjárbandalaginu, en það hernaðarbandalag lagði upp laupana með kommúnismanum fyrir aldarfjórðungi. Nató vill meira.

Nató tileinkar sér greiningu Marx á þeim hlutlægu skilyrðum sem skulu vera fyrir hendi til að ný hugmyndafræði nái fram að ganga. Marx skrifar í þýsku hugmyndafræðinni

Empírískt getur nató-ismi aðeins orðið mögulegur þegar ríkjandi þjóðir samtímis tileinka sér samfélagspólitík nató-isma.
(Empirically, communism is only possible as the act of the dominant peoples “all at once” and simultaneously, which presupposes the universal development of productive forces and the world intercourse bound up with communism.)

Og hvað er Nató-ismi, sem hér að ofan er jafnsettur kommúnisma? Jú, nató-ismi er þegar allar þjóðir viðurkenna nauðsyn þess að ganga í Nató.

Ef frásögnin væri úr ævintýri H.C. Andersen ætti barnið Ísland að spyrja: ef allar þjóðir eru í einu hernaðarbandalagi, hver er þá óvinurinn?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef allir Íslendingar eru aðilar að Íslenska ríkinu, til hvers er þá lögreglan?

Frá stofnun þjóðabandalagsins og síðar SÞ hefur verið unnið að því að heimurinn reki sameiginlega öryggisstefnu þar sem hervald verður líkara lögregluvaldi og er aðeins beitt gegn þeim ríkjum sem rjúfa friðinn.

Nú er SÞ langt því frá að vera jafn misheppnað framtak og margir "raunsæismenn" vilja meina en er þó töluvert langt frá því að duga sem "öryggissamlag" fyrir heiminn. NATO hefur frá lokum kalda stríðins þróast í að verða "öryggissamlag" vesturlanda og það er ekkert nema gott um það að segja, sérstaklega ef horft er á málin frá sjónarhóli veikari ríkja.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.8.2015 kl. 14:13

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Her mætti, Hans, líkja að einhverju marki við lögreglu. Hernaðarbandalag er allt annar hlutur, það er bandalag ríkja sem eiga sameiginlega öryggishagsmuni. Þessir sameiginlegu hagsmunir hljóta að standa sameinaðir gegn öryggi annarra ríkja - annars væri ekkert vit í félagsskapnum.

Hernaðarbandalög eru samkvæmt skilgreiningu til höfuðs einhverjum raunverulegum eða ímynduðum óvini. Ef hernaðarbandalag eins og Nató verður yfirþyrmandi öflugt þá munu þeir sem liggja næst landamærum Nató-ríkja óttast öryggi sitt.

Maður þarf að vera ansi bláeygur að trúa öðru.

Páll Vilhjálmsson, 19.8.2015 kl. 15:33

3 identicon

Bandalag á milli þjóða þarf ekki að vera ólíkt bandalaginu sem er til staðar innan þjóðar, samkomulag um umgengisreglur og sameiginlega vörn gegn hvers konar utanaðkomandi ógnum. Öryggisbandalög þurfa ekki að beinast gegn neinum frekar en tilvist ríkis þarf að vera háð óvini.

Annars er NATO yfirþyrmandi öflugt í samanburði við Rússland. Bandalagið hafði Sovétríkin undir í vopnakaphlaupi og færi létt með Rússland ef það hefði á því áhuga. Bandalagið hefur hinsvegar ekki sýnt minnstu tilburði í átt að því að vígvæðast gegn Rússlandi og sést það best á því að vafi leikur á getu þess til að verja Eystrasalstlöndin.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.8.2015 kl. 15:47

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ef maður tekur sér frí frá sögunni, allt  frá Forn-Grikkjum til samtímans, þá gæti maður fallist á skilgreiningu þína á hernaðarbandalagi. En þú finnur ekkert dæmi í sögunni um hernaðarbandalag sem ekki er stofnað til höfuðs einum eða neinum. Orðað á annan hátt: hernaðarbandalög eru alltaf stofnuð á forsendunum ,,við" og ,,þeir".

Rússar eru um 140 milljónir, ESB-ríkin eitthvað um 500 milljónir og Bandaríkin 325 milljónir. Þótt íbúafjöldi segi aðeins hluta sögunnar um getu ríkja til að heyja stríð þá ættu hlutföllin að upplýsa hver ætti að óttast hvern í mögulegum átökum.

Páll Vilhjálmsson, 19.8.2015 kl. 16:01

5 identicon

Ef þú skilgreinir hernaðarbandalag á þann hátt að það sé stofnað til höfuðs einhverjum þá er vissulega erfitt að finna bandalag sem ekki er stofnað til höfuðs einhverjum:) Ef þú notar víðari skilgreiningu þá má benda á t.d Þjóðabandalagið, SÞ, Bandaríkin og Sviss fyrr á tímum og jafnvel sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnu ESB.

Annars ert þú sjálfur að benda á lykilatriðið í þessu. NATO ber höfuð og herðar yfir Rússa bæði hvað varðar mannfjölda og efnahagsstyrk en ríkin hafa samt leyft sér að koma sér í veika stöðu gagnvart Rússum. Er hægt að hugsa sér meira afgerandi sönnun um að fyrirætlanir NATO gagnvart Rússum eru ekki fjandsamlegar?

NATO ríkin hafa frá lokum Kalda stríðsins dregið þungar brynfylkingar og stórskotalið stórkostlega saman á meðan að flug- og sjóherir hafa komið sér upp færri en fjölhæfari einingum - m.ö.o undirbúið sig undir herleiðangra til fjarlægra landa en ekki stórveldaátök í Evrópu. Á sama tíma hafa Bandaríkjamenn haldið kjarnorkuherafla sínum í lágmarki og Evrópa hefur gerst háð Rússum um orku. Hvar er verið að sauma að Rússum?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.8.2015 kl. 16:20

6 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Það er verið að sauma að Rússum með því að stækka Nató í austur, um það snýst málið. Hernaðarbandalag Rússa, Varsjárbandalagið, var lagt niður fyrir 25 árum en Nató stækkað æ síðan. Hermenn og vopn má flytja með skömmum fyrirvara hvert á land sem er. Þegar Nató-ríkjum fjölgar og þau færast nær Rússlandi þá vex ógnarmáttur þeirra gagnvart Rússum.

Það að ,,koma sér í veika stöðu", eins og þú segir, er alveg út í bláinn. Nató styrkir sína stöðu jafnt og þétt og ógnar eftir því öryggishagsmunum Rússlands.

Páll Vilhjálmsson, 19.8.2015 kl. 18:14

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Heppin var ég að vera ekki búin að senda  færslu mína,höfundi hefur ekki orða bundist. Svo fáranleg er færsla Hans Haralds um samdrátt Nato á þungum brynfylkingum og stórfylkingum,sem sanna eiga fyrir Rússum að Þeir ætla ekkert að ráðast á þá.    

Helga Kristjánsdóttir, 19.8.2015 kl. 18:38

8 identicon

Þú flytur ekki vopn sem eru ekki til. Stór hluti af þungavopnum NATO er kominn í brotajárn og öll uppbygging NATO-herafla síðustu 20 ár og nær öll þróun hergagna (og þá erum við að tala um prógröm sem taka áratugi) hefur miðað að minni herafla sem hægt er að beita utan Evrópu og N-Ameríku.

Sá kúrs sem NATO-ríkin hafa tekið í hernaðaruppbyggingu er ekki þess eðlis að honum verði snúið við með stuttum fyrirvara og beinist einfaldlega ekki gegn Rússlandi.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.8.2015 kl. 18:51

9 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég var í Brussel, í heimsókn í höfuðstöðvum Nató sem námsmaður, þegar Gorbatsjev var við völd í Sovét. Hann talaði fyrir friði og bættum samskiptum.

Mér er minnisstætt að einkennisbúnir Nató-menn töluðu um að ásetningur Sovétmanna gæti verið þessi og hinn þá og þá stundina. Spurningin væri um möguleikana sem Sovétríkin hefðu til að heyja stríð.

Ef við heimfærum þessa hugsun upp á Nató, og horfum á málið frá rússneskri hlið, þá myndu Rússar spyrja um möguleika Nató að herja á Rússland. Og burtséð frá þeim vopnum sem menn eiga í handraðanum á talandi stundu þá eru landfræðilegir möguleikar Nató að herja á Rússa ógnvænlegir - séð frá rússnesku sjónarhorni.

Páll Vilhjálmsson, 19.8.2015 kl. 21:32

10 identicon

Munurinn er sá að Sovétríkin voru þá í vopnakapphlaupi við NATO. Í dag er NATO aftur á móti löngu hætt í vopnakapphlaupi við Rússland þótt það hefði getað náð afgerandi forskoti. NATO hefur í 20 ár hagað uppbyggingu herafla síns þvert á það sem þyrfti til að standa í átökum við Rússa.

Tökum nokkur dæmi (til viðbótar við samdrátt í þungavopnum):

Bandaríkin hættu framleiðslu á framlínuorrustoþotum af 5. kynslóð (F-22) við tæplega 190 stykki í stað 750. Þessar þotur eru lykillinn að því að brjóta niður háþróaðar loftvarnir. Evrópsku NATO ríkin ráða ekki yfir sambærilegum þotum og eru ekki að þróa þær (sú bandaríska tók 24 ár í þróun).

Árásarþotur Bandaríkjamann sem voru sérstaklega hannaðar til höfðus rússneskum brynfylkingum (A-10) eru á útleið. Þoturnar sem koma í staðinn eru ekki sérstaklega hannaðar til að eyða bryndrekum og það er engin ný útgáfa af fyrri þotuni í þróun (en slík þróunarvinna er margra ára verkefni).

Í staðinn hafa bandaríkjamenn lagt áherslu á að koma sér upp allskonar drónarellum sem henta vel fyrir þriðjaheimsstríð en myndu ekki endast í fimm mínútur gegn rússneskum loftvörnum.

Frakkar eru að endurnýja sinn orrustuþotuflota með einni tegund orrustuþotu sem er mjög fjölhæf (og hentar því vel fyrir hernað utan landsteinana) en líkla mjög dýr. Til að mæta kostnaði verður franski orrustuþotuflotinn helmingaður að stærð.

Kafbátafreigáturnar sem áttu að verja herflutninga NATO frá N-Ameríku til Evópu eru svo til allar löngu farnar og sambærileg skip ekki í smíðum eða þróun.

Svona mætti lengi telja en þú sérð væntanlega að þetta er ekki spurning um hvaða vopn eru við hendina heldur meiriháttar strategíska breytingu frá undirbúningi fyrir átök við Rússa.

Og í öllu falli, eins og ég held að við höfum minnst á áður, breyta kjarnavopn öllum leikreglum hernaðar frá því sem var 1812 eða 1941.

Það er ekki á nokkurn hátt trúverðugt að rússnesk yfirvöld meti stækkun NATO til austurs í alvöru sem ógn við rússneska heimalandið. Stækkunin særir stórveldismetnað þeirra og líklega er Pútín að spila á rússneska þjóðerniskennd til að beina sjónum frá því að stjórnarstefna hans er að sigla í strand.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.8.2015 kl. 22:29

11 Smámynd: Snorri Hansson

 Höfum í stjórnarskrá að það sé óheimilt  að veita stuðning fyrir hönd þjóðarinnar við árás á aðra þjóð eða kúgun hvers konar, viðskiptalega eða hernaðarlega.

Snorri Hansson, 20.8.2015 kl. 01:45

12 Smámynd: Skeggi Skaftason

Páll skrifar:

Nató er búið að innbyrða nær öll ríki sem áður voru í Varsjárbandalaginu

Hvernig fór NATÓ að því að "innbyrða" þessi lönd?  Hvað merkir orðið "innbyrða" í hinum huga Páls?

Myndi ekki gamli blaðamaðurinn telja réttara að segja:

Nær öll ríki sem voru í Varsjárbandalaginu hafi nú SJÁLF KOSIÐ að ganga í NATÓ.

Skeggi Skaftason, 20.8.2015 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband