Miðvikudagur, 5. ágúst 2015
Vinstriflokkar í hlekkjum hugarfarsins
Vinstriflokkarnir eru í samkeppni um fylgishrun sem ekki sér fyrir endann á. Róttækasti flokkurinn, Vinstri grænir, kemur illskást út með 10,2 prósent fylgi. Mið-vinstriflokkarnir, Samfylking og Björt framtíð, skrapa botninn með 9,6 og 4,4 prósent fylgi.
Þegar þrír vinstriflokkar hrynja samtímis er nærtækt að leita að sameiginlegri skýringu. Flokkarnir stóðu saman að ríkisstjórn Jóhönnu Sig., þar sem Björt framtíð var með óbeina aðild.
Viðskilnaður ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. við efnahagskerfið var með ágætum. Hér var lítið atvinnuleysi og hagvöxtur. Uppgjörið við bankaglæpina, þar sem auðmenn voru dregnir fyrir dóm, var í góðri sátt við þjóðina.
Hörðu málin, sem oft eru vinstriflokkum skeinuhætt, efnahagsmál og dómsmál, voru í prýðilegu lagi. Skýringa á hrikalegri stöðu vinstriflokka hlýtur að vera að leita í almennu viðmóti þeirra gagnvart kjósendum.
Eitt meginþema sameinar Samfylkingu, Vinstri græna og Bjarta framtíð. Þetta meginþema var ráðandi í pólitískri umræðu þessara flokka á liðnu kjörtímabili og er enn í forgrunni.
Ónýta Ísland heitir meginþema vinstrimanna frá hruni. Undir þessu þema ætluðu vinstriflokkarnir að gerbylta lýðveldinu. Við áttum að fá nýja stjórnarskrá, ganga í Evrópusambandið og grunnatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegur, skyldi stokkaður upp.
Vinstrimenn lætur betur að gagnrýna en byggja upp. Slagorðið ónýta Ísland gagnaðist til að auka samheldni vinstriflokkanna, sem sögulega eru ósamstæðir, en það hjálpaði þeim ekki við að útlista hvað ætti að taka við ónýta ástandinu. Vinstrimenn buðu ekki upp á jákvæða framtíðarsýn, aðeins svartnætti í baksýnispeglinum.
Þjóðin fékk ekki annað að heyra frá vinstrimönnum en að hér væri allt í kaldakoli. Strax eftir hrun voru margir sem trúðu að Ísland væri ekki á vetur setjandi - hér yrði að gera grundvallarbreytingar til að í landinu væri búandi.
En reynslan sýndi og sannaði að öll meginkerfi lýðveldisins virkuðu. Krónan og fullveldið sáu til þess að efnahagskerfið rétti út kútnum hratt og vel; dómskerfið starfaði í þágu réttlætisins, menntakerfið tók við unga fólkinu sem hrökklaðist af vinnumarkaði og heilbrigðiskerfið skilaði sínu. Jafnvel fjármálakerfið, sem var stóra meinsemdin, stöðvaðist ekki þótt bankarnir yrðu gjaldþrota.
Veruleikinn afhjúpaði að slagorðið 'ónýta Ísland' átti ekki við nein rök að styðjast. Hrunið sýndi fram á veikleika í stefnumótun eftir að útrásin skekkti valdajafnvægi milli atvinnulífs auðmanna annars vegar og hins vegar opinberra aðila. En þessa veikleika var hægt að leiðrétta án byltingar í stjórnskipun og hrunið sjálft leiðrétti valdajafnvægið - auðmenn urðu hornkerlingar á einni nóttu.
Vinstrimenn geta ekki rifið sig frá eigin skilgreiningu um ónýti lands og þjóðar. Ósigur vinstriflokkanna í kosningunum 2013 var ekki nýttur til að endurskoða hugarfar sem sannanlega er úr takti við veruleikann. Á nýju kjörtímabili reyna vinstriflokkarnir að mynda bandalag við lýðskrumshópa á Austurvelli sem koma saman til að mótmæla einu í dag og öðru á morgun. Fáeinar hræður á Austurvelli, sem kallast á við fylgisfátæka vinstriþingmenn í málþófi, gera ekki annað en að auglýsa hve vinstriflokkarnir eru úr taki við þjóðina.
Í einni setningu er vandi vinstriflokkanna eftirfarandi: kjósendur hafna stjórnmálaflokkum sem ekki treysta þjóðinni.
Píratar með 35% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.