Laugardagur, 1. ágúst 2015
Skömm Hallgerðar, Guðni og Freud
Hallgerður er bók eftir Guðna Ágústsson um aðra af tveim alræmdustu kvenpersónum Íslendingasagna, ásamt Guðrún Ósvífursdóttir úr Laxdælu. Báðar eru þær höfundar að drápi ástmanna sinna, Hallgerður Gunnars á Hlíðarenda og Guðrún Kjartans Ólafssonar. Gunnar og Kjartan voru hetjur sem féllu fyrir köldum kvennaráðum. Ættarbönd tengja sögurnar, Hallgerður er föðursystir Kjartans.
Laxdæla leggur á síðustu blaðsíðu Guðrúnu þau orð í munn 'þeim var ég verst, er ég unni mest' sem fara langt með að fyrirgefa henni ódæðið. Hallgerður langbrók fær engin slík orð í Njálu. Hennar síðustu eru ,,hirði ég aldrei, hvort þú ver þig lengur eða skemur" og dæmir þar hetjuna til dauða. Tengdamóðir Hallgerðar segir skömm hennar lengi uppi.
Bók Guðna er útskýring á skömm Hallgerðar. Að skilja er að fyrirgefa og málsbætur Hallgerðar eru slíkar, segir Guðni, að einhliða fordæming er ómakleg.
Hallgerður Guðna Ágústssonar verður fyrir mótlæti í æsku, líklega nauðgað af þræl, gefin gömlum manni, sem þrællinn drepur, fær annan mann sem einnig fellur fyrir þrælnum. Við svo búið sendir Hallgerður þrælinn, sem hún mögulega liggur undir af frjálsum vilja, í opinn dauðann til Hrúts frænda, sem sá þjófsaugun í ásjónu langbrókar þegar hún var barn. Eftir að hún tekur saman við Gunnar verður Hallgerður fyrir einelti af hálfu Bergþóru, konu Njáls, vinar Gunnars. Hallgerður og Berþóra drepa þræla hvor fyrir hinni en bændurnir friðmælast. Hallgerður staðfestir þjófseðlið, sem Hrútur frændi fann hjá henni ungri, lætur enn annan þræl stela mat, fær löðrung fyrir hjá Gunnari bónda sínum og styttist þá í fall hetjunnar.
Hallgerður Guðna er nútímakona sem herðist við hverja raun, lætur engan eiga inni hjá sér, samtímis sem hún er viðkvæm og duttlungafull. Hún gæti verið á alþingi í dag og kemur frænka Guðna í huga sem samjöfnuður.
Vandamálið við Hallgerði hans Guðna er stílbrotið þegar hún neitar Gunnari um lokk til að hann fái varið sig með boganum. Hallgerður elskar Gunnar, þrátt fyrir kinnhestinn, eða kannski vegna hans, og ætti ekki að óska sér dauða hans. Ef hún væri nútímakona.
Til að skilja Hallgerði þarf að leita í smiðju Sigmundar Freud sem skrifaði um mann og samfélag á fyrri hluta síðustu aldar. Undir oki siðmenningar segir frá tveim kröftum sem takast á um heimsyfirráðin í sál manna og samfélagi þeirra. Ástarfýsn og dauðahvöt eru í stöðugri baráttu en búa samt í nábýli.
Hrútur frændi segir samdrátt Hallgerðar og Gunnars ,,girndarráð" beggja og þar er ástarfýsninni lýst. Freud segir um samspil ástarfýsnar og dauðahvatar:
Það er í sadismanum sem okkur lánast að fá skýrasta innsýn í eðli hennar [dauðahvatarinnar] og tengsl við Eros [ástarfýsnina]. En það er þá, sem dauðahneigðin snýr markmiði ásthneigðar sér í hag, en fullnægir þó jafnframt kynhvötinni algerlega. En jafnvel þegar dauðahvötin sprettur upp óblönduð ástarmarkmiði og blind eyðingaröfl geysa fram, þá fer það ekki framhjá okkur að fullnægingu þeirrar hvatar fylgir óvenjumikil narkísk sæla. Það stafar af því að hún lætur gamlan almættisdraum sjálfsins rætast.
Hallgerður var stjórnsöm og ól með sér draum að ráða framvindu stórra mála. Sem kona gat hún ekki valdið vopni svo að nýttist en hún beitti þeim ráðum sem hún kunni, kvennleika, kænsku og kjafthætti. Hárlokkurinn sem hún neitaði Gunnari um á ögurstundu var áhrifaríkasta vopn andstæðinga hetjunnar.
Í hápunkti sögu Hallgerðar og Gunnars deyja þau bæði. Hann deyr karlmennskudauða en hún kvenlægum dauða, er skrifuð úr sögunni með þeim orðum tengdamóður sinnar um langa skömm. Gunnar deyr skjótt og skiur eftir sig orðstí sem aldrei gleymist. Þjóðin kepptist við að gleyma Hallgerði, eins og Guðni bendir á, með því að vera nísk á að gefa stúlkubörnum nafnið.
Skömm Hallgerðar er að hún gaf sig á vald dauðahvötinni til fullnægja almættisdraumi. Og kannski er þar einmitt komin holdi klædd nútímakonan sem vill standa jafnfætis körlum.
Athugasemdir
Ég er ósammála þessu. Hallgerður rökstyður það að hún gerir þetta af mannúðarsjónarmiðum til þess að koma í veg fyrir stórfelld dráp á mönnum þar sem Gunnar á við ofurefli að etja og verður drepinn hvort eð er.
Ómar Ragnarsson, 1.8.2015 kl. 16:58
Ómar, orðaskipti Gunnars og Hallgerðar eru eftirfarandi:
Hann mælti til Hallgerðar: "Fá mér leppa tvo úr hári þínu og snúið þið móðir mín saman til bogastrengs mér."
"Liggur þér nokkuð við?" segir hún.
"Líf mitt liggur við," segir hann, "því að þeir munu mig aldrei fá sóttan meðan eg kem boganum við."
"Þá skal eg nú," segir hún, "muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur."
"Hefir hver til síns ágætis nokkuð," segir Gunnar, "og skal þig þessa eigi lengi biðja."
Rannveig mælti: "Illa fer þér og mun þín skömm lengi uppi."
Úr þessum orðaskiptum er tæplega hægt að lesa mannúð Hallgerðar gagnvart ofsækjendum Gunnars. Hallgerður kemur ekki fyrir sem manneskja friðar og sátta og lítilla blóðsúthellinga. Þvert á móti.
Páll Vilhjálmsson, 1.8.2015 kl. 18:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.