Föstudagur, 31. júlí 2015
Mannúð, fjölmenning og töpuð velferð
Velferðarþjóðfélög vesturlanda voru byggð á mannúðarsjónarmiðum. Velferðarþjóðfélögin byggðu á tvíþættum arfi byltinganna á 19. öld um frelsi, jafnrétti og bræðralag annars vegar og hins vegar fullvalda þjóðríki sem skipulagsheild.
Almenningur í velferðarþjóðfélögum Vestur-Evrópu var fram yfir miðja síðustu öld einsleitur; bjó að sömu tungu, sögu og menningu. Eftir miðja öldina opnuðu Vestur-Evrópuríki landamæri sín fólki úr öðrum heimsálfum. Vestur-Þýskaland fékk ódýrt vinnuafl frá Tyrklandi, Bretar og Frakkar tóku við fyrrum þegnum sínum úr nýlendunum.
Velferðarþjóðfélög Vestur-Evrópu gátu og vildu taka við fólki frá Afríku, Miðausturlöndum og Asíu. Hugmyndin um fjölmenningu fékk opinberan stuðning. Þjóðleg einsleitni skyldi víkja fyrir alþjóðlegri fjölbreytni. Evrópusambandið jók vinsældir sínar á þessum sama grunni.
Um aldamótin fer að renna upp fyrir almenningi í Vestur-Evrópu að stóraukinn straumur aðkomumanna úr fjarlægum heimsálfum mun keyra velferðarþjóðfélagið í gjaldþrot. Fjölmenningin bíður jafnframt hnekki þar sem hún fóstrar trúaröfgar sem ala af sér hryðjuverkamenn er herja á vestræn samfélög og grunngildi þeirra. Í stjórnmálum vék mannúð eftirstríðsáranna, sem sósíaldemókratar báru einkum fram, fyrir nýrri umræðu um menningarmun milli fólks eftir uppruna og trú.
Óöld í Miðausturlöndum eykur á flóttamannastrauminn til Evrópu, sem jafnframt tekst á við þjóðflutninga innan Evrópusambandsins þar sem fólk í austri flytur vestur í von um betri lífskjör.
Einsleitnin sem var hornsteinn velferðarþjóðfélagins er töpuð og kemur ekki aftur. Fjölmenningin er misheppnuð tilraun.
Efnahagslega velmegunin sem stóð undir velferðarþjóðfélaginu er í hættu, ekki síst á evru-svæðinu. Lítill hagvöxtur og hátt atvinnuleysi gerir kröfu um sparnað í ríkisútgjöldum, sem bitnar á skjólstæðingum velferðarkerfisins.
Velferðarþjóðfélag vesturlanda er á hvarfanda hveli. Alls óvíst er hvað tekur við.
Calais og Hitler í sömu setningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er það ekki framsóknarflokkurinn sem að þú styður sem að vil auka flutning flóttafólks til landsins ofan í það atvinnuleysi og þann húsnæðisskort sem er fyrir í landinu?
http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/35220
Jón Þórhallsson, 31.7.2015 kl. 11:37
Bara að benda mönnum á að Vesturlönd eru að komast í þá stöðu að íbúum þar fer að fækka sem og að hlutfall þeirra sem eru á vinnaldri fjölgar gríðarlega. Þýskaland væri ekki það sem það er í dag nema vegna þess að þar hafa Tyrkir verið fluttir inn í hundruðum þúsunda til að starfa í verksmiðjum. Ef það væri ekki gert væru þessi störf unnin í öðrum löndum eins og Kína. Sbr. Bretland og fleiri lönd. Hér á Íslandi væri lítið byggt ef að við værum ekki að flytja inn fólk til að sinna ákveðnum störfum. Það er óvart orðið þannig að vinnumarkaður hér er orðinn stærri en það vinnuafl sem við höfum. Og því er ljóst að ef hér á að auka framleiðni þurfum við að flytja inn fólk. Auðvita fylgja því einhver vandamál og einhverjir svartir sauðir en við þurfum bara að vera tilbúin að taka á því Skilst að flest sláturhús í dag séu mönnuð útlendingum, ferðaþjonusta að milklu leiti, mikið af veitingarstöðum, fiskvinnsla og þetta á bara eftir að aukasta. Flóttamenn hverfa ekki í Evrópu fyrr en að Evrópa fer að fjárfesta í Afríku og Asíu og borga almennilega fyrir störf sem við látum vinna þar. Þá breytast aðstæður fólk og fólksflótti minnkar.
Magnús Helgi Björgvinsson, 31.7.2015 kl. 12:07
Eitt gleymist í þessari umræðu: Ef ekki hefði komið til innflutningur fólks til að vinna láglaunastörfin sem vesturlandafólk vill helst ekki vinna hefði efnahagur þessara landa hrunið, og stórfækkandi fæðingar og fjölgun ellilífeyrisþega hefði gert ástandið enn verra.
Ómar Ragnarsson, 31.7.2015 kl. 13:16
Ég held að láglaunastörfin hefðu verið mönnuð - því launin hefðu hækkað einfaldlega vegna þess að þau þarf að vinna.
Innflutningur á ódýru vinnuafli gerir ekki annað en að viðhalda lágum launum.
Kolbrún Hilmars, 31.7.2015 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.