Sunnudagur, 12. júlí 2015
Lög og sæmd í Njálu og nútíma
Á köflum er Njála handbók í lögum. Undan og yfir lagahugsun Njálu er sæmdin, sú hugmynd að sérhver maður eigi sóma sem hann verði að gæta til að lífið sé einhvers virði. Njáli bauðst útganga úr brennunni en svaraði:
Eigi vil eg út ganga því eg er maður gamall og er eg lítt til búinn að hefna sona minna en eg vil eigi lifa við skömm.
Nútímamenningu er framandi að skömm fylgi skertum sóma. Skyldi ætla að lög og lagatúlkun í menningu þjóðveldisaldar væri álíka fjarri okkar tíma og sæmdin. En svo er ekki.
Gunnar á Hlíðarenda deildi við þá nafna Þorgeir Starkarðarson og Otkelsson. Eftir mannvíg náðust sættir. Þorgeir Starkarðarson undi málalokum illa og mútaði fjandmanni Gunnars, Merði Valgarðssyni, lögspekingi, að setja saman ráðagerð til að klekkja á Gunnari.
Mörður ráðleggur Þorgeiri Starkarðarsyni að fá nafna sinn Otkelsson í lið með sér að herja á Gunnar. Þorgeir Otkelsson færist undan með þeim rökum að hann sé í sáttum við Gunnar og vilji ekki teljast ,,griðníðingur".
Þorgeir Starkarðarson færi þau rök, ættuð úr lagasmiðju Marðar, að Gunnar hafi rofið sættina við þá nafna, með því að sækjast eftir jörðum í eigu þeirra vegna óskyldra mála. Nafnarnir tölu bersýnilega að sáttin milli þeirra og Gunnars skyldi taka til allra ágreiningsefna. Lögsátt og sómi, sem er persónubundinn, eru hér nátengd .
Þorger Otkelsson fellst á að fara að Gunnari með nafna sínum. En tilræðið misheppnast og málin fara til alþingis. Njáll sækir málið fyrir Gunnar vin sinn en Mörður fyrir Þorgeirana tvo.
Mörður endurtekur rökin hér að ofan, að Gunnar hafi rofið sátt með lögsókn gegn þeim og fengið sáðland af Þorgeiri Otkelssyni og jörðina Móeiðarhvol af Þorgeiri Starkarðarsyni.
Njáll svarar eins og lögspekingur í samtíma:
,,Eigi er það sættarrof," segir Njáll, ,,að hver hafi lög við annan því að með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða."
Lög og sæmd á okkar dögum eru aðskilin atriði. Það er helst í meiðyrðamálum sem sæmd kemur til sögunnar. Í lagaþrætum, þar sem koma við sögu manndráp og fasteignadeilur, er sæmdin víðsfjarri.
Njáll undirstrikar hlutlægni laganna, að þau séu ekki persónubundin. Orðalagið að ,,hver hafi lög við annan" fer nokkuð nærri því að segja alla jafna fyrir lögum. Og það er nútímaleg hugsun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.