Þriðjudagur, 7. júlí 2015
Finnska skólamódelið í uppnámi
Frá aldamótum er Finnland Mekka skólamanna á Vesturlöndum. Ástæðan er að finnsk ungmenni skoruðu hæst á alþjóðlegum prófum, kenndum við PISA, í stærðfræði, læsi og vísindalæsi. Stórþjóðir Evrópu sendu til Finnlands skólamenn í flugvélaförmum að læra hvað Finnar gerðu rétt.
Ameríkanar fóru líka til Finnlands, kannski ekki með jafn mikla glýju, en samt, Finnar toppa PISA-listann.
Á síðustu árum tapa Finnar þeirri forystu sem þeir höfðu í PISA-prófum. Og það er eins og við manninn mælt að stórfelld endurskoðun er hafin á finnska skólamódelinu. Skýrslur, eins og frá Centre for Policy Studies, segja að finnska módelið byggði á gömlum gildum, ekki nútíma kennsluháttum, og að sein samfélagsþróun Finna hafi viðhaldið gömlum aga í skólum sem flest önnur vestrín ríki voru búin að glata. Gamli skólaaginn skilaði Finnum PISA-forystunni.
Þýskir fjölmiðlar benda á að þegar velgengni finnskra nemenda, skv. PISA, var hvað mest þá hafi kannanir sýnt hvað mesta vanlíðan finnskra skólaungmenna. Valið, samkvæmt þeim þýsku, virðist standa á milli vanlíðunar í skóla og góðs námárangurs annars vegar og hins vegar að þrífast vel en skila síðri námsárangri.
Yfirveguð bandarísk greining á finnska skólastarfinu setur það í samhengi við nægjusemi Finna, virðingu kennara í samfélaginu, góðan tíma sem kennarar hafa til að ræða málin og samfélagslega samkennd.
Niðurstaða: skólar eru samofnir hverju samfélagi og verða ekki greindir nema í samfélagslegu samhengi. Það er ekki til neitt eitt skólamódel sem hentar öllum samfélögum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.