Miðvikudagur, 17. júní 2015
Rökin fyrir breyttri stjórnarskrá drepin 17. júní 2015
Ný stjórnarskrá var verkefni vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Stjórnarskráin var flokkspólitískt verkefni vinstriflokkanna sem rakst á vegg almannaviljans í þingkosningum 2013: Samfylking fékk 12,9 prósent fylgi og Vg 10,9 prósent.
Aðgerðasinnar úr röðum vinstrimanna létu ekki segjast við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga og halda áfram að krefjast nýrrar stjórnarskrár.
Núverandi stjórnarskrá er að grunni frá 1874 og fylgt þjóðinni frá torfkofum inn í tækniöld. Engin rök standa til þess að hún sé úrelt.
Aðgerðasinnar í þágu nýrrar stjórnarskrár vanvirða þjóðhátíðardaginn með mótmælum á Austurvelli. Þjóðhátíð er til að minnast þess sem við eigum sameiginlegt. Fólk sem vanvirðir sameign okkar er ekki hæft til að setja þjóðinni stjórnarskrá.
Reynslan sýnir að eftirgjöf í meginmálum veit á uppgjöf. Í fyrirsjáanlegri framtíð á ekki undir neinum kringumstæðum að vekja máls á endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það væri uppgjöf fyrir þeim öflum sem vilja stjórnskipun okkar feiga.
Gagnrýnin byggð á misskilningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Þjóðhátíð er til að minnast þess sem við eigum sameiginlegt". Er þá fiskveiðiauðlindin undanskilin þessari skilgreiningu þinni ?
Níels A. Ársælsson., 17.6.2015 kl. 16:37
Þær eru nú töluvert fleiri auðlindir landsins en fiskveiðiauðlindin ein sem þyrfti þá að tiltaka sérstaklega í nýrri stjórnarskrá.
Reyndar kveður 40.gr. stjórnarskrárinnar á um fasteignir landsins og afnotarétt þeirra og hvernig þeim megi aðeins ráðstafa með lögum.
Það þarf ekki stjórnarskrárbreytingu til þess að setja lög.
Kolbrún Hilmars, 17.6.2015 kl. 16:54
Við eigum fiskveiðiauðlindina sameiginlega. Um það er ekki deilt. Aftur er þráttað um hvernig hún skuli nytjuð og með hvaða afgjaldi. Sú umræða er jafn áhugaverð og aðrar kjaradeilur.
Páll Vilhjálmsson, 17.6.2015 kl. 16:58
Kjaradeilur ? Er veðsetning fárra fyrirtækja á 200 sjómílna landhelginni til erlendra lánastofnana með skelfilegum afleiðingum fyrir þúsundir einstaklinga
Níels A. Ársælsson., 17.6.2015 kl. 17:37
"Þjóðhátíð er til að minnast þess sem við eigum sameiginlegt."
Ekki á ég margt sameiginlegt með þér Palli. Þegar ég les pistlana þína er eins og þú búir í allt öðru landi en ég.
Skeggi Skaftason, 17.6.2015 kl. 17:54
„Í fyrirsjáanlegri framtíð á ekki undir neinum kringumstæðum að vekja máls á endurskoðun stjórnarskrárinnar.“ Þú fylgist ekki með Páll - það er nefnd að störfum sem vinnur að breytingum, m.a. með hliðsjón af tillögum Stjórnlagaráðs.
Hjálmtýr V Heiðdal, 17.6.2015 kl. 19:26
Það er ekkert að þeirri stjórnarskrá sem við nú búum við.
Ragnhildur Kolka, 17.6.2015 kl. 20:50
Síðuhafi skrifar: "Í fyrirsjáanlegri framtíð á ekki undir neinum kringumstæðum að vekja máls á endurskoðun stjórnarskrárinnar."
Er ekki öruggast að banna málfrelsi til að tryggja að ekki verði minnst á að endurskoða stjórnarskrána? En, ó, Páll er meðfylgjandi málfrelsi--þegar það hentar honum.
Wilhelm Emilsson, 17.6.2015 kl. 21:01
Auðvitað veit Páll af því að nefnd um endurskoðun stjórnarskrár er að störfum, Hjálmtýr. En eftir uppákomu dagsins efast hann um að það skref sé réttmætt. Ég deili þeim efa með Páli, enda framkoma mótmælenda með ólíkindum.
Látum vera þó fólk mæti með mótmælaspjöld á svona hátíð. Það eru alltaf einhverjir sem eru siðlausir. Og jafnvel mætti sætta sig við þó einstaka hjáróma rödd bauli á forsætisráðherra.
En að stunda háreysti meðan fjallkonan flytur ávarp, meðan kórar syngja okkar fallegu lög og sérstaklega meðan þjóðsöngurinn er sunginn, er með öllu óafsakanlegt. Ekkert af þessu kemur stjórnun landsins við, þetta eru okkar sameiginlegu gildi, óháð allri pólitík. Þetta eru saklausu gildin okkar, sem öll þjóðin sameinast um.
Nú hefur þessu sakleysi verið fórnað, sameiginlegu gildin verið svívirt. Og það af fámennum hóp sem lætur pólitík villa sér sýn.
Þeir sem ekki eru sáttir við ávarp fjallkonunnar, ekki eru sáttir við flutning kóra á okkar fallegu lögum, þeir sem ekki eru sáttir við þjóðsönginn okkar, Þeir sem telja við hæfi að svívirða þessi gildi með háreysti og mótmælum, ættu kannski að spá alvarlega í hvort þeir eigi yfir höfuð samleið með íslenskri þjóð. Kannski væri betra fyrir þetta fólk að finna sér annað land til að búa í.
Það er ekkert að því að mótmæla stjórnvöldum, hverju sinni. Það má gera hvar sem og nánast hvernig sem er, svo fremi að ofbeldi sé látið vera. Tækifærin til slíkra mótmæla eru næg og staðirnir óteljandi.
Það má því hæglega láta þjóðhátíðardaginn í friði.
Það er ljóst að margir sem höfðu meðaumkun með þeim hópum sem að mótmælunum stóðu, hafa tapað þeirri meðaumkun, eftir daginn í dag.
Gunnar Heiðarsson, 17.6.2015 kl. 21:07
Ég tel að þú hafir rétt fyrir þér Gunnar Heiðarsson, þeir sem höfðu meðaumkun með þeim skríl sem að skrílslátunum stóðu í dag á Austurvelli hafi að mestu gufað upp í skítalykt.
Látum svo vera að skríllinn hagaði sér eins og bavíanarnir meðan SGD ávarpaði hátíðargesti, en að eyðileggja alla þá vinnu (æfingar) sem að kórinn var búinn að leggja á sig, er ekkert nema viðbjóðsleg sjálfselska vinstri skrílsins.
Gleðilega Þjóðhátíð.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 17.6.2015 kl. 22:55
Gunnar, þú skrifar: "Látum vera þó fólk mæti með mótmælaspjöld á svona hátíð. Það eru alltaf einhverjir sem eru siðlausir." Það vantar ekki fullyrðingagleðina.
Wilhelm Emilsson, 17.6.2015 kl. 23:46
Þetta er ekki fullyrðingagleði Wilhelm, einungis mín skoðun.
Mín skoðun er að þjóðhátíðardagurinn okkar sé hátíðisdagur og þau hátíðahöld sem þá eru flutt eigi að vera utan við pólitískt dægurþras.
Mín skoðun er sú að þeir sem ekki geta setið á sér með mótmæli þann dag, jafnvel þó einungis sé í formi þess að halda á mótmælaspjaldi, séu siðlausir.
Þá getur þú ímyndað þér hvaða skoðun ég hef á þeim sem með háreysti og dónaskap svívirtu fjallkonuna og þjóðsönginn og komu í veg fyrir að fólk nyti flutnings kóra á okkar fallegustu lögum.
Mín skoðun er að þarna hafi flokkspólitísk öfl komið af stað atburðarás sem margir eiga eftir að skammast sín fyrir að hafa tekið þátt í, skammast sín fyrir að hafa verið notuð sem leiksoppar í pólitísku dægurþrasi.
En auðvitað eru sumir stoltir, stoltir af því að hafa með framkomu sinni eyðilagt það sakleysi og þá gleði sem ríkt hefur á þessum degi, allt frá stofnun lýðveldisins. Stoltir yfir því að hafa náð að grafa ögn undan sjálfstæði þjóðarinnar.
Gunnar Heiðarsson, 18.6.2015 kl. 08:46
Að hafa skoðun og vera fullyrðingaglaður stangast ekki endilega á. Oft fer það saman, eins og við sjáum í bloggheimum :)
Wilhelm Emilsson, 18.6.2015 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.