Eggert, Andersenskjölin og auðmannavörnin

Almannatengillinn Eggert Skúlason ákvað árið 2013 að skrifa bók um misnotkun opinbers valds gagnvart auðmönnum - löngu áður en ákærur á hendur þeim voru birtar. Almannatenglar þurfa ekki sannfæringu fyrir réttlæti, aðeins greiðslu fyrir unnin störf. Í eftirmála bókarinnar, Andersenskjölin, rannsóknir eða ofsóknir?, kemur hvergi fram hverjir borguðu Eggerti að setja saman bókina en treysta má að tímakaupið hafi verið þokkalegt.

Bókin hverfist um Gunnar Þ. Andersen sem var forstjóri Fjármálaeftirlitsins um stund eftir hrun. Eggert dregur upp þá mynd af Gunnari að í embættisverkum hafi hann fyrst og síðast svalað persónulegum hefndarþorsta.

Veigamikill þáttur í bókinni er að Ingólfur Guðmundsson missti starf sitt sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga sökum þess að Fjármálaeftirlitið taldi hann ekki hæfan vegna athafna á tímum útrásar. Ingólfur er sannfærður um að Gunnar væri að hefna sín á honum, án þess að ástæðan sé gefin upp, og kennir aðferðir Gunnars við vinnulag Gestapó Hitlers (bls 136).

Annað meint fórnarlamb Gunnars, Guðmundur Örn Gunnarsson, líkir vinnubrögðum Fjármálaeftirlitsins við Stasi, austur-þýsku leyniþjónustuna á tímum kommúnista (bls. 167).

Þrátt fyrir líkingar við Gestapó og Stasi er enginn beittur harðræði í yfirheyrslum heldur vinnur réttarkerfið á mannúðlegan hátt úr  málum. Ingólfur fær bætur fyrir óréttmæta uppsögn.

Hvorki Ingólfur né Guðmundur Örn eru auðmenn. Þeir eru litlir fiskar sem þjóna þeim tilgangi að setja Gunnar Þ. Andersen í hlutverk þrjóts og tortryggja alla embættisfærslu Fjármálaeftirlitsins í rannsókn hrunmála.

Annað meginþema í bók almannatengilsins er ,,reiðin í samfélaginu” en það er þekkt stef í auðmannavörinni. Gefið er í skyn að hús og eigur auðmanna hafi verið skemmd með velþóknun stjórnvalda. Eggerti er í nöp við Egil Helgason og kennir honum um að skapa andrúmsloft heiftar. Einnig fær Eva Joly það óþvegið og henni lýst sem hlægilegri og afdankaðri.

Eggert styðst að verulegu leyti við nafnlausa heimildamenn. Þar sem hægt er að koma við heimildarýni má draga þá ályktun að Eggert velji sér heimildir sem staðfesta fyrirframgefna niðurstöðu.

Þannig er lögreglumanninum Jóni Óttari Ólafssyni teflt fram sem traustri heimild. Jón Óttar var til rannsóknar vegna gruns um brot á þagnarskyldu. Jón Óttar gekk fram fyrir skjöldu í vörn auðmanna í viðtali við Fréttablaðið og getur ekki undir nokkrum kringumstæðum talist trúverðug heimild. Bloggarinn Ólafur Arnarson er regluleg heimild. Hann var á launum auðmanna að rétta hlut þeirra í umræðunni.

Til að sýnast vandaður og fræðilegur skreytir Eggert bókina neðanmálsgreinum, en það er ekki óþekkt aðferð í áróðursritum.

Falli Gunnars er lýst ítarlega en um leið einhliða. Kastljós RÚV er þar í aðalhlutverki. Á þessum tíma var Kastljós þénugt verkfæri ríkisstjórnarinnar, einkum þó annars stjórnarflokksins, Vinstri grænna. Steingrímur J. Sigfússon sá um að reka Gunnar úr embætti og náði um það samvinnu við Guðlaug Þór Þórðarson þingmann Sjáfstæðisflokksins, sem tók af sér viðvik fyrir auðmenn á tímum útrásar, eins og að fella Björn Bjarnason í prófkjöri árið  2007.

Gunnar var negldur fyrir að koma á framfæri gögnum um fjármálaathafnir Guðlaugs Þórs á tímum útrásar. Myndin sem Eggert dregur upp af falli Gunnars er að þar fékk þrjóturinn makleg málagjöld. Eggert viðurkennir að verkefnið var að gera Gunnar að skúrki. ,,Þegar bókin var langt komin óskaði ég eftir að ræða við Gunnar Andersen um ýmis atriði,” skrifar Eggert í eftirmála. Þegar bók er ,,langt komin” verður fáu hnikað um meginþema og efnistök.

Í síðustu efnisgrein bókarinnar skrifar Eggert: ,,Mér segir svo hugur um að það ástand og sú misnotkun valds, sem átti sér stað gagnvart fjölda einstaklinga eftir hrun bankana, muni lifa með þjóðinni líkt og Guðmundar og Geirfinnsmálið.”

Maður spyr sig: hver er þóknun almannatengla fyrir snökt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það er óneitanlega galli á bók sem vill vera trúverðug heimild að það úi-og-grúi af ónafngreindum heimildamönnum.

Ragnhildur Kolka, 6.5.2015 kl. 10:02

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er undarlegt að þurfa að ríkisreka réttarkerfi í gegnum skáldsögur og "heimildarsögur" (jafnvel ósannar klíkuheimildir). Vegna þess hversu dómstólakerfið er spillt og glæpaklíkutengt?

Hvers vegna slapp strákurinn Guðlaugur Þór við að mæta í réttinn, þegar Gunnar Þ. Andersen var dreginn í gegnum hagsmunaklíku-réttarkerfið fyrir nokkrum árum síðan?

Allir eiga rétt á að vita hvað er í gangi, í svokölluðu lýðræðis og siðmenntuðu réttarríkis-samfélagi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.5.2015 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband