Skagafjörður, Úkraína og brotin valdakerfi

Í dag eru 769 ár frá Haugsnesbardaga, blóðugustu orustu Sturlungaaldar. Þórður Sighvatsson sigraði Brand Kolbeinsson og réð þar með yfir Norðurlandi öllu ásamt Vesturlandi. Skagafjörður var á Sturlungaöld það sem Úkraína er í dag, vettvangur þar sem örlög brotins valdakerfis ráðast.

Haugsnesbardagi varð á miðri Sturlungaöld en það er 40 ára tímabil, 1220 til 1264, sem markar endalok valdakerfis þjóðveldisaldar sem stóð i 300 ár. Önnur orusta í Skagafirði, Örlygsstaðabardagi, gerði úti um vonir Sturlunga að ná landsyfirráðum. Enginn íslensku goðanna var í færum að koma á nýju valdakerfi. Tilgangslaus manndráp stóðu yfir í áratugi áður en yfir lauk.  

Engin einhlít skýring er á því hvers vegna goðakerfið liðaðist í sundur. Innlendar ástæður, s.s. valdabarátta höfðingja, og erlendar, ásælni Noregskonungs, voru meginskýringar en þær eru hvergi nærri tæmandi. Valdakerfi verða til undir ákveðnum kringumstæðum, í okkar tilfelli þegar Ísland var fullbyggt, og þau halda velli uns sagan úrskurðar þau úrelt.  

Valdakerfið í Evrópu er 70 ára gamalt, varð til eftir lok seinni heimsstyrjaldar, þegar sigurvegararnir, Bandaríkin og Sovétríkin, skiptu með sér álfunni.

Valdakerfi Evrópu stóð af sér hrun Sovétríkjanna fyrir aldarfjórðungi. Þrjú öfl þrengdu sér inn í valdatómið sem Sovétríkin skildu eftir; Bandaríkin, Evrópusambandið og Rússland. Valdaöflin þrjú eru hver með sína skoðun á skipan mála á meginlandi Evrópu og það er undirrót átakanna.

Úkraína er, eins og Skagafjörður á Sturlungaöld, miðlægt svæði. Veldi Sturlunga voru vestan og austan Skagafjarðar en Haukdæla fyrir sunnan. Úkraína er á milli Evrópusambandsins og Rússlands.

Vegna miðlægrar legu er Úkraína kjörlendi uppgjörs brotins valdakerfis. Landið er vettvangurinn þar sem blóðsúthellingar ákveða framtíð álfunnar. Líkur eru meiri en minni að baráttan dragist á langinn og tvísýnt er að það takist að halda átökunum innan landamæra Úkraínu. 

 

 


mbl.is „Af Rússlandi stafar ógn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hver er/ hvar er opinber afstaða forseta ÍSLANDS í Úkraínu-málinu?

Hefur hann ekki verið að flaðra upp um rússana?

http://www.forseti.is/Leit/?startat=/&q=rússland

Og styður þú svo ekki forseta Íslands opinberlega?

Jón Þórhallsson, 19.4.2015 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband