Föstudagur, 17. apríl 2015
Facebook, ergo sum
Ég hugsa og þar af leiðir er ég til, sagði franski heimspekingurinn Descartes snemma á nýöld og undirbyggði þar með vestræna þekkingu án skírskotunar í trúarheima. Þótt almættið sjálft þvingaði Descartes til að efast um allt og alla gæti hann ekki efast um hugsunina um efann og þar væri komin sönnun fyrir tilvist sem ekki væri hægt að efa.
Nýöld var uppreisn einstaklingsins gegn almættinu. Hundrað árum áður en sá franski smættaði einstaklingsfrelsið í cogito ergo sum klauf munkurinn Marteinn Lúter kaþólsku kirkjuna með orðunum ,,hér stend ég og get ekki annað...". Mótmælendur eins og Lúter gerðu trú að aukagetu einstaklingsins. Trú var ekki lengur miðlæg í tilverunni sem mátaði einstaklinginn við eilíft líf.
Einvíð veraldarhyggja nýaldar er óðum að víkja fyrir víðómi 21stu aldar þar sem einstaklingsímyndin er tvöföld; í kjötheimum annars vegar og hins vegar í netveröld. Togstreitan er ekki lengur á milli veraldar og trúar heldur hversdagsins og netheima.
Merkingarþungi netheima vex jafnt og þétt líkt og trúin varð æ sterkari á ármiðöldum uns hún varð yfirþyrmandi skömmu áður en þeir Lúter, Descartes og fleiri gerðu uppreisn.
Einstaklingurinn verður með tvöfalda ímynd, eina í áþreifanlegum samskiptum þar sem tónn, fas og framkoma skila ímyndinni til umhverfisins en aðra í netheimum þar sem rafræn skilaboð og hannað myndefni varpa út og geyma netímynd einstaklingsins.
Töluverð áskorun er að halda jafnvægi á milli tilverunnar í kjötheimum og í henni netveröld.
Ertu nógu rík, dugleg eða flott? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tónn fas og framkoma eru þá oft varnarskildir djúphugsaðrar andúðar,sem flæðir óhindrað með rafrænum skilaboðum. Sérstaklega með nafnleynd.
Helga Kristjánsdóttir, 17.4.2015 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.