Þriðjudagur, 14. apríl 2015
ESB-andstæðingar fá tvo fyrir einn
Umsókn er aðferð til að eyðileggja stjórnflokk, að því gefnu að umsóknin sé nógu illa ígrunduð og borin fram af græðgisblindri vanþekkingu. ESB-umsóknin og Samfylking passa eins og flís við rass í þessari skilgreiningu.
Samfylking getur hvorki barist fyrir ESB-umsókninni því að málefnastaðan er gjörtöpuð, hvort heldur litið er til eymdarstöðu Evrópusambandsins eða velsældarinnar á Íslandi, né getur Samfylking svarið af sér umsóknina og varpað Evrópumálum fyrir róða enda á flokkurinn ekkert annað málefni að berjast fyrir.
Samfylking er með ESB-umsóknina sem myllustein um háls sér. Systurflokkurinn, Björt framtíð, er um það bil búin að koma sjálfum sér fyrir kattarnef vegna umsóknarinnar, þótt ekki beri systurflokkurinn sömu ábyrgð og móðurflokkurinn á mistökunum fyrir sex árum.
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar er ESB-sinni fram í fingurgóma. Hann líður önn yfir stöðu umsóknarinnar og reyndi í gærmorgun að véla fulltrúa Seðlabankans með sér í evruför með fjármagnshöftin. Heimssýn greinir frá sálarstríði formannsins á morgunfundinum með seðalbankamönnum.
Eftir hádegi var Guðmundi öllum lokið og hann lýsti sig fífl sem ekki hægt væri að boða á fundi. Stjórnmálamaður sem uppnefnir sjálfan sig og auglýsir sig hornkerlingu sem ástæðulaust er að boða á fundi er vitanlega á leið úr starfi; án funda þrífast ekki stjórnmál.
Kratísku systurflokkarnir stunda umsóknarsjálfspíningu sem verður æ ámátlegri eftir því sem frá líður pólitíska stórslysinu 16. júlí 2009.
Þjóðin klofin í afstöðu til ESB-umsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.