Hvar er verkalýðshreyfingin í umræðunni um erlent vinnuafl?

Verkalýðshreyfingin liggur lágt í umræðunni um erlent vinnuafl. Á meðan hún þegir taka aðrir til máls og leggja útaf samkeppninni sem íslenskir launamenn eiga við útlendinga sem koma frá láglaunasvæðum Austur-Evrópu og láta sér líka kjör og aðbúnað sem okkur þykir ekki sæmandi.

Verkalýðshreyfingin var ekki frekar en aðrir viðbúin holskeflu útlendinga á vinnumarkaðinn hér heima. Nauðvörnin var að krefjast þess að erlendum launþegum yrði greitt eftir gildandi kjarasamningum. En það hefur lengi tíðkast hér á landi, einkum meðal iðnaðarmanna, að gildandi kjarasamningur eru töluvert fyrir neðan markaðslaun. Á meðan vinnumarkaðurinn var lokaður gekk þetta fyrirkomulag, enda ekki tiltökumál að hafa yfirsýn yfir kaup og kjör þorra fólks. Eftir á að hyggja voru það vitanlega mistök að láta kjarasamninga dragast afturúr raunlaunum.

Þótt útlendingar fái greitt samkvæmt íslenskum kjarasamningum eru félagsleg undirboð engu að síður stunduð vegna þess að markaðslaun eru hærri en kjarasamningar kveða á um. Þá er ótalið að aðbúnaður erlenda vinnuaflsins er oft langt fyrir neðan viðurkennd viðmið.

Verkalýðshreyfingin hefur afl og getu til að setja málefni erlends vinnuafls á dagskrá, móta tillögur um hvernig skuli brugðist við og vinna að framgangi þeirra.

Það er fokið í flest skjól ef verkalýðshreyfingin segir pass í umræðunni um erlent vinnuafl á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Gæti ekki verið meira sammála. Man ekki eftir að hafa heyrt á undanförnum tveimur árum eitt einasta "Komment" frá innlendum verkalýðsfélögum um allan þennan skara innfluttra verkamanna, ef undan eru skilin skrif og málflutningur Guðmundar hjá Rafiðnaðarsambandinu. Einhver annar tjáð sig??

Halldór Egill Guðnason, 4.4.2007 kl. 01:59

2 Smámynd: Magnús Jónsson

Þar er staðreynd að verkalýðsforkálfarnir sitja í eigin þágu. 

Kaup og kjör félagsmanna er aukaatriði sem sést á þessum algera sofandahætti gagnvart stríðum óheftum straumum ódýrs vinnuafls.  Það er alveg ljóst að þessi grey sem koma hingað frá austurevrópu fá enganveginn sömu laun og íslenskir iðnaðarmenn og nú er einmitt aðeins að draga úr spennunni á vinnumarkaði, þá fer íslenska vinnuaflið fyrst.

Þessa þróun má þakka beint þeim forkálfum á íslandi sem þiggja laun sín frá íslensku vinnuafli, þeir hafa enganveginn unnið fyrir kaupinu sínu ef skjólstæðingarnir eru reknir úr vinnu vegna of hárra launakrafna.... en sitja sjálfir eftir í 500-700þ.kr störfunum .

Íslendingar eru þó vanir að láta valta yfir sig og líklega taka þessu eins og hverju hundsbiti, þó að lang stærsti hluti þjóðarinnar lækki í launum í samkeppni við fólk sem kemur frá svæðum þar sem mánaðarlaun uppá 150-200$ duga til framfærslu.

En hvað duga 200$ lengi á íslandi ?? 

Magnús Jónsson, 4.4.2007 kl. 07:29

3 identicon

Ég tel að menn séu meira að vinna í málunum en að tala um þá í fjölmiðlum, það er vænlegra til árangurs. En ég er að sjálfsögðu sammála því að betur má ef duga skal.

Ágúst Þorláksson (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 09:32

4 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Sum Verkalýðsfélög og forkólfar þeirra hafa staðið sig með prýði í þessari baráttu en af einhverjum ástæðum orðið undir. Hér má nefna AFL á Austurlandi, Verkalýðfélag Akraness og Verkalýðsfélagið á Húsavík. Ég vitnaði í umsagnir nokkurra þeirra í þessari ræðu sem ég hélt í þinginu í lok apríl á síðasta ári þegar frumvarpið um frjálsa för launafólks var kýlt gegnum þingið. Svo hef ég bent nýlega á þessa umsögn frá AFLI sem þinginu barst um daginn og ég hvet alla til að lesa. Hún er rituð nú í febrúar. Lýsingarnar á ástandinu eru allsvakalegar. Þessi umsögn hefur þó ekki vakið athygli neinna fjölmiðla að ég best veit. Hvers vegna, veit ég ekki. Hér ætti hæglega að vera verkefni fyrir góðan rannsóknablaðamann að skúbba rækiega en kannski skortir kjark?

Magnús Þór Hafsteinsson, 4.4.2007 kl. 10:16

5 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Maður veltur stundum fyrir sér hvað verkalýðshreyfingin er að gera, það var kraftur í henni þegar Guðmundur Jaki vann að málum verkalýðsins. Guðmundur hjá Rafiðnaðarsambandinu hefur nú fengið ákúrur fyrir að opna munnin og kalla hlutina réttum nöfnum.

Auðvitað heyrist ekkert frá Verkalýðshreyfingunni frekar en Sjálfstæðismönnum í umræðunni um nýbúa þessa lands sem að koma hingað til að vinna. Fyrir hvern ætli þeir séu yfirleitt að vinna???

Gaman væri að heyra hvað Ágúst Þorláksson telur verkalýðshreyfinguna vera að gera??

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 4.4.2007 kl. 10:19

6 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Þetta er bara ekki rétt, Páll. Hefur þú ekki heyrt um átak ASÍ; Einn réttur - ekkert svindl? ASÍ hefur látið mikið í sér heyra um þessi mál og verkalýðshreyfingin og sjóðir hennar hafa meira og minna haldið upp íslenskukennslu fyrir útlendinga og stutt bæði þá menntun og aðra. Þá hefur Efling staðið að sérstökum kynningarkvöldum um réttindamál fyrir Pólverja, Litháa og fleiri aðila. Alltaf fyrir fullu húsi. Fyrir frumkvæði Eflingar hefur, í samvinnu við Mími símenntun og fleiri aðila verið komið á fót sérstöku námi fyrir erlent starfsfólk í umönnunarstörfum.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 4.4.2007 kl. 11:57

7 identicon

Já Ingibjörg ég held að það sé ekki endilega málið að halda sérstakt nám fyrir erlent starfsfólk sem verið sé að tala um í þessu tilfelli, heldur það að Íslenskir iðnaðarmen og verkfólk verður að láta undan launakröfum vegna svara einsog "ég get fengið x marga pólverja fyrir 550 kr á tíman og þeir vinna frá 8 til 7 á sama tímakaupi". Ég þekki bara alltof marga sem hafa þurft að lækka launin sín vegna undirboðs frá erlendu launafólki sem er að sjá fyrir fjölskyldu í allt öðru efnahagsumhverfi en hér á Íslandi. Þar sem mjólur líterinn kostar um 9kr, brauð 14 kr og 5 manna fjölskylda getur lifað vel á 30þ kr á mánuði, hver getur keppt við það hérna?

Þetta er spurninginn Ingibjörg þegar það kemur að launamálum erlents vinnuafl, við hinnir erum bara ekki samkeppnishæfir þeim!

Fínt ef þeir koma hingað og vinna fyrir 200þ kr á mánuði fyrir 8klst vinnu dag en þegar þeir eru að fá 120þ kr fyrir 10 til 11 klst er ekki hægt að keppa við þá. Og ekki segja mér að þetta sé ekki til hérna þar sem ég þekki þetta af eigin raun.

Hannes (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 13:44

8 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Þetta sem þú lýsir Hannes er auðvitað ótækt og hlýtur að vera fyrir neðan alla kjarasamninga. Ég geri ráð fyrir að herferð ASÍ: "Einn réttur - ekkert svindl" hafi einmitt beinst gegn þessu. Auðvitað þarf að taka á þessu og kynningarfundir með erlendum verkamönnum um rétt þeirra, fundir sem hafa verið mjög vel sóttir, hljóta að vera partur af því. Hitt er annað mál að það hlýtur líka að vera á ábyrgð ríkisvaldsins að atvinnurekendur komist ekki upp með að brjóta bæði lög og kjarasamninga. Ef raunverulegur vilji þess fælist í því að hugsa um rétt verkafólks til mannsæmandi kjara en ekki til þess að skaffa atvinnurekendum ódýrt vinnuafl, þá held ég að róður verkalýðshreyfingarinnar í hennar baráttu hefði reynst mun léttari.

Þau námskeið sem ég nefndi snúa að starfsmönnum í vinnu hjá hinu opinbera enda sjálfsagt að styrkja stöðu þeirra. Svindlið og svínaríið er hins vegar á hinum almenna vinnumarkaði og því þarf að taka enn betur á - þar þarf ríkisvaldið að koma styrkt inn - í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 4.4.2007 kl. 13:57

9 identicon

Ingibjörg ég held að þú hafir hitt naglan á höfuðið með þessari setningu.

"Ef raunverulegur vilji þess fælist í því að hugsa um rétt verkafólks til mannsæmandi kjara en ekki til þess að skaffa atvinnurekendum ódýrt vinnuafl, þá held ég að róður verkalýðshreyfingarinnar í hennar baráttu hefði reynst mun léttari."

En þessi raunverulegi vilji, hvar á hann að liggja? Eru það stjórnvöld sem eiga fylgjast með þessu eða verkalýðsfélögin og ef svo hvað geta þau í raun og veru gert?

Og einsog Páll segir hvar eru Verkalýðsfélögin? Meðan allir breyta umræðuni í annað hvort Rasistma eða Alþjóðlegt samfélag þá virðist sem verkalýðsfélögin sitja út í horni og segja sem minnst. VG er svo upptekið að hugsa um Kárahnjúka að þeir hafa gleymt verkafólkinu og Samfylkingin talar bara um rósrauðadrauma alþjóðlegs samfélag og á meðan lítur hún framhjá vandamálunum sem skapast af of miklu vinnuafli.

Vandamálið er að Íslensk stjórnmál eru að verða fyrir of mikil Pólitískri Rétthugsun, ekkert má segja, öll dýrin verða að vera vinir í skóginum.

Hannes (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 16:06

10 identicon

Ja, þegar þú nefnir það þá hef ég ekkert heyrt í henni heldur! Skyldi hún vera lífs? Er að hugsa um að kíkja á síðasta launaseðil til að athuga hvort ég sé enn að greiða til félagsins.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 17:09

11 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Verkalýðshreyfingin hefur undanfarin ár snúist meira um ferðaávísanir og orlofshús heldur en að vernda réttindi verkamanna hérlendis.

Það kemur heldur ekkert á óvart að verkalýðsforkólfarnir sem sitja á eigin forsendum eru ekki að taka þátt í þessari orðskák sem hér fer fram, þar sem ekki má minnast á innflytjendamál hérlendis án þess að vissir aðilar máli þig sem skrattann í horninu og saki þig um kynþáttahatur og þaðan af verra, til að mynda að ýta undir kynþáttaofbeldi.

Þetta hefur best sést hér á innflytjendaumræðunni sem við FF liðar viljum halda á hærra plani málefnalegra umræðna. Við höfum verið úthrópaðir sem rasistar í sífellu þó að öðru sé nær.

Það þarf að vera virk umræða um þessi mál. Landið okkar er lítið og fámennt og ber ekki endalaust magn innflutts vinnuafls, sérstaklega ekki ef í harðbakkan slær. Hvað skal þá gera? Reka saklausa innflutta Íslendinga út? Nei. Það væri dæmi um alvöru kynþáttahyggju.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.4.2007 kl. 20:24

12 Smámynd: Kristján Pétursson

Hefði viljað sjá forustumenn verkalýðshreyfingarinnar gera heildaráætlun um virkt eftirlit með útlendingum,sem hingað koma,bæði er tekur til launa og aðbúnaðar.Þeir ættu að hafa nokkra menn á fullum launum til að sinna þessu verkefni,einnig að hafa eftirlit með fjölda útlendinga,sem hér starfa á svörtum markaði.Vitanlega á Vinnuveitendasambandið að sjá til þess að fyrirtæki fari að lögum í þessum efnum.

Kristján Pétursson, 4.4.2007 kl. 21:20

13 Smámynd: Jóhann H.

Verkalýðsforystan má bara ekkert vera af því að skipta sér af þessu.  Þeir eru önnum kafnir við að telja peninga því skyndilega hefur orðið gríðarleg aukning í innheimtu félagsgjalda.  Þegar þeir hafa undan í peningatalningunni ætla þeir að skipa nefnd til að komast að ástæðunni.  Þá grunar reyndar að það séu einhverjir útlendingar en þeir vilja ekki trúa því fyrr en nefndarálitið liggur fyrir...

Jóhann H., 4.4.2007 kl. 21:46

14 Smámynd: Björn Heiðdal

Án útlendinga væri alveg vonlaust að reka lítil iðnaðar- og þjónustufyrirtæki eins og staðan er í dag.  Ungir Íslendingar nenna ekki að vinna þó þeim væri borgað vel fyrir.  Það kostar jafn mikið fyrir Pólverja að lifa á Íslandi eins og Íslendinga.  Þannig að allt tal um að Pólverjar sætti sig við lakari kjör til lengdar er bull bull.  

Björn Heiðdal, 5.4.2007 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband