Andlýðræðislegar kosningar í Hafnarfirði

Hafnfirsku kosningarnar hafa verið lofaðar sem lýðræðislegar. En með gildum rökum má segja að þær hafi verið andlýðræðislegar og aðeins efnt til þeirra til að þóknast eiganda álversins, Alcan.

Í áratugi hafa lýðræðislega kjörin skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði byggt upp íbúðabyggð í nágrenni álversins. Með almennt viðurkennd sjónarmið um sambýli íbúðabyggðar og álvers í huga má halda því fram að harðar staðreyndir byggðarinnar í kringum álverið hafi útilokað stækkun. Engum myndi detta í hug að staðsetja nýtt álver í Hafnarfirði á þeim stað sem það er núna.

Álverið er barn síns tíma. Þegar það var reist var ekki tiltökumál þótt vörubílar með fiskúrgangi væru geymdir í íbúðabyggð og fnykurinn af mjölbræðslum var kölluð peningalykt.

Meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði ákvað að taka sér pólitískt frí og leggja deiliskipulagstillöguna um stækkað álver í dóm kjósenda í stað þess að kannast við sinn vitjunartíma og hafna óskum álversins um stækkun.

Til skamms tíma þótti sjálfsagt á Íslandi að almenningur kysi um hundahald í þéttbýli og hvort opna skyldi útsölu ÁTVR í tilteknu byggðalagi. Litið var svo á að þetta væru ópólitísk mál. Önnur mál skyldu útkljáð á vettvangi fulltrúalýðræðis þar sem stjórnmálamenn þurfa að vera í sæmilegum takti við almenning sem veitir þeim umboð á fjögurra ára fresti.

Kosningarnar um stækkun álversins í Hafnarfirði eru að því leyti líkar hundahaldskosningum að valkostirnir voru skýrir, stækkun eða ekki. Það eru tiltölulega fá almenn álitamál sem hafa tvær hliðar, í flestum tilvikum eru margir kostir, ýmsar útfærslur og fjöldi blæbrigða. Ef beinar kosningar færast í aukana mun það ekki auka vald almennings, eins og sumir halda fram, því þeir sem ákveða hvaða valkosti skuli kosið um og hvernig spurningar verða lagðar fram munu hafa tögl og haldir.

Í kosningunni í Hafnarfirði var það Alcan sem hafði tögl og haldir og skorti aðeins 89 atkvæði til að brjóta á bak aftur lýðræðislegan vilja Hafnfirðinga eins og hann hafði verið staðfestur margsinnis í áratugi.


mbl.is Erfið ákvörðun en nauðsynleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bíddu, átti ekki að standa:

Í áratugi hafa lýðræðislega kjörin skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði stefnt að stækkun álversins í Straumsvík.

Humm (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 18:23

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Páll vildi verða formaður samfylkingarinar á Seltjarnanesi en var ekki kosinn. Held ég fari með rétt mál, leiðrettið mig ef þetta er vitlaust.

Tómas Þóroddsson, 1.4.2007 kl. 23:03

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sælir Benedikt og Tómas

Ég var stofnfélagi og fyrsti formaður Samfylkingar Seltirninga og hafði það embætti þangað til ég sagði af mér formennsku. Í desember síðast liðnum sagði ég mig úr flokknum enda höfðu mál þróast þannig að mér fannst ég ekki eiga lengur samleið. Að frátöldu almennu pólitísku starfi í flokknum voru það einkum tvö mál sem gerðu útslagið: Evrópustefna flokksins og afstaðan í fjölmiðlamálinu.

Samfylkingin hefur ekkert gert á minn hlut, eins og Benedikt veltir fyrir sér, annað en að vera með pólitískar áherslur sem ég er ekki sammála.

Páll Vilhjálmsson, 1.4.2007 kl. 23:34

4 Smámynd: Hallgrímur Egilsson

Sæll Páll, það er eitt sem flestir hugsa ekki út í varðandi kosningarnar um helgina. Þær snerust ekki um álverið í Straumsvík. Þær snerust um deiliskipulag, hvort Hafnfirðingar væru sáttir við það. Það er hægt að breyta deiliskipulaginu, það þarf hvort eð er að gera það, og í nýju skipulagi væri gert ráð fyrir stækkuðu álveri einnig... Þetta er hægt að gera, ef vilji er fyrir hjá bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Hallgrímur Egilsson, 3.4.2007 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband