Laugardagur, 21. febrúar 2015
Grískt lýðræði gildir ekki í Þýskalandi
Grikkir kusu sér nýja ríkisstjórn til að binda endi á sex ára spennitreyju sparnaðar í ríkisrekstri og lamað efnahagslíf með 25 til 30 prósent atvinnuleysi.
Grískt lýðræði gildir á hinn bóginn ekki í Þýskalandi sem er stærsti lánadrottinn Grikkja og vill peningana sína tilbaka. ,,Grikkir verða að grafa sína pólitísku drauma," er haft eftir fjármálaráðherra Þýskalands.
Lýðræði Grikkja er einskins virði án fullveldis. Reglulegar betliferðir fjármálaráðherra Grikkja til Brussel auglýsa hvar fullveldi landsins er geymt. Grikkir skulda 175 prósent af þjóðarframleiðslu sinni og standa ekki undir afborgunum. Ef Grikkir væru fullvalda færu þeir í gjaldþrot og gætu byrjað endurbyggingu samfélagins með gjaldmiðil sem endurspeglaði grískan veruleika en ekki þýskan.
Eftir hálfan annan áratug með evru eru Grikkir vanir því að láta aðra borga fyrir sig reikninginn. Tapað fullveldi er glötuð sjálfsmynd og því fylgir algert ráðleysi.
Nú frá Grikkir tvo daga til að skrifa upp lista af sparnaðaraðgerðum sem nýkjörin ríkisstjórn lofaði að yrðu ekki á dagskrá.
Grikkir eru of aumir og kúgaðir til að gera eitthvað raunhæft í sínum málum. Kannski að evrópski seðlabankinn taki af þeim ómakið og hendi þeim út af evru-svæðinu. Sá þýski Spiegel, sem reynslan staðfestir að veit margt rétt, er með heimildir fyrir undirbúningi GREXIT.
Þurfa að uppfylla ströng skilyrði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.